139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að byrja á því að leiðrétta síðasta ræðumann. Hann sagði að hagvaxtarvæntingar og fjárfestingaráætlanir sem menn sæju fyrir sér væru ólíkar milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins en það er bara ekki rétt. Við vitum alveg hver hagvöxturinn er núna og hverju menn spá á næstu vikum, en fjárfestingaráform sem er verið að ræða milli aðila vinnumarkaðarins ganga mjög í sömu áttina. Ríkisstjórnin vinnur að því hörðum höndum að setja fram slík fjárfestingaráform og -áætlanir þótt vissulega eigi atvinnulífið sjálft fyrst og fremst að keyra upp hagvöxtinn en ríkisvaldið að skapa skilyrði til þess að það sé hægt.

Í áformum ríkisstjórnarinnar er mjög margt á döfinni sem ég hef ekki tíma til að ræða hér en mun skapa mörg störf og vera mikil innspýting í aukinn hagvöxt. Vegaframkvæmdir er hægt að nefna þótt þær séu vissulega ekki í höfn nema Vaðlaheiðin. Vonir standa til að hægt sé að fara í útboð á þeim á næstu dögum og þar erum við að tala um að skapa 200 störf með afleiddum störfum. Vonandi fara vegaframkvæmdir líka í gang á Suðurlands- og Vesturlandsvegi þótt það sé ekki í höfn. Ýmislegt annað er þar líka á döfinni.

Ég held að ég verði líka að leiðrétta rangfærslur sem iðulega koma fram í umræðunni. Hér er stanslaust talað um að ríkisstjórn sé með yfirlýsingar og aftur yfirlýsingar um þjóðnýtingu. Það er ekki rétt. Það hefur enginn sagt að það eigi að beita því úrræði þótt það sé til í lögum og vissulega vita allir að það er til í lögum. Það er unnið (Gripið fram í.) eftir allt öðrum leiðum en þeirri.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson má ekki heyra á Icesave nefnt eða að það þvælist fyrir neinum, þá byrjar hann að skjálfa hér í ræðustól. Það er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að Búðarhálsvirkjun er háð því að fá lán gegnum Evrópska fjárfestingarbankann ef Icesave leysist vegna þess að það hefur verið sagt að það sé nátengt lánshæfismati.

Síðan heldur hv. þm. Ólöf Nordal því fram að við séum með yfirlýsingar um að stórauka skatta á einstaklinga. Hvar hefur það komið fram? Ég hef bara hvergi séð það. Það er þvert á móti unnið að því í kjarasamningum að lækka skattana gegnum persónuafsláttinn á einstaklingana. Það rekst hvað á annars horn í þessari umræðu hjá stjórnarandstöðunni sem heldur iðulega fram allt of miklu fleipri.

Við höfum fjölgað hér störfum. Störf hafa verið varin. Sem betur fer er atvinnuleysi miklu minna en spáð var. Hlutfall íslenskra ríkisborgara sem hafa (Gripið fram í.) farið af landinu er ekki hærra, þótt það sé of hátt, en það var á bilinu 1994–1997, það er álíka mikið 2008–2010. Það sem stendur alltaf (Forseti hringir.) upp úr hjá þessari stjórnarandstöðu er að einu úrlausnirnar sem hún hefur er að það þurfi að skipta um ríkisstjórn en ég vil bara segja við hv. þingmenn (Forseti hringir.) að þá fyrst rættist sá bölmóður sem iðulega kemur úr munni stjórnarandstöðunnar hér í ræðustól. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Látum reyna á það.)