139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir að flytja þetta mál. Málið ber það með sér að hér er um víðtækar breytingar að ræða og ég hygg að góð sátt geti náðst um mjög marga meginþætti þess. Þingflokksformenn allra flokka á þingi eru meðflutningsmenn hæstv. forseta að málinu og málið fékk auðvitað talsverða umfjöllun á vettvangi þingflokkanna áður en það var lagt fram. Þar er um að ræða vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar að mál sem varða störf okkar á þingi, hvernig við vinnum þau sem best af hendi, séu unnin í sem víðtækastri samstöðu og sem víðtækastri sátt. Fyrir það allt ber að þakka.

Eins og hæstv. forseti gat um í framsöguræðu sinni eru ákveðin atriði sem við getum sagt að standi enn út af borðinu og fyrirvarar hafa verið gerðir um, a.m.k. með óformlegum hætti, og þeir koma alveg örugglega til umræðu á vettvangi þeirrar nefndar sem fær málið til afgreiðslu. Ég mun hugsanlega víkja að nokkrum þeirra þátta á eftir og vonandi endurspeglar það að mestu leyti þær umræður sem farið hafa fram í mínum þingflokki um málið þó að ekki sé um neinar formlegar samþykktir að ræða í þeim efnum og einstakir þingmenn geta auðvitað haft skoðanir á einstökum málum eins og kann að koma fram við afgreiðslu málsins.

En eins og hæstv. forseti gat um eru þær meginbreytingar sem hér eru lagðar til þríþættar. Í fyrsta lagi varðandi mjög róttækar breytingar á nefndaskipan Alþingis, í öðru lagi varðandi eftirlitshlutverk Alþingis, styrkingu á eftirlitshlutverki þess, og í þriðja lagi það sem varðar trúnaðarupplýsingar og skyld atriði.

Ég vildi í fyrsta lagi segja um nefndaskipanina að verkaskipting nefnda hér er auðvitað ekki heilög og þarf að taka breytingum eftir því sem aðstæður gera kröfu um. Við fórum í gegnum ákveðnar breytingar fyrir þrem, fjórum árum, ekki róttækar breytingar hvað varðar nefndaskipanina sem slíka, það voru aðrir þættir í því þingskapafrumvarpi sem kannski breyttu meiru. Þá er ég einkum að vísa til ræðutímans, sem á þeim tíma var talsvert umdeildur, þegar í rauninni var stigið það skref að taka fyrir ræðuhöld út í hið óendanlega, ef svo má segja. Þó að enn sé svigrúm þingmanna nokkurt var það þó skert verulega og er svo sem ekki verið að víkja neitt að þeim málum hér.

Varðandi nefndaskipanina gerðum við ákveðnar breytingar fyrir þrem, fjórum árum. Hér er gert ráð fyrir töluvert róttækari breytingu og eins og ég sagði er ekkert heilagt í þessum efnum. Við hljótum auðvitað að taka tillit til aðstæðna um hvernig við skiptum verkum með okkur í nefndum en ég hef, og margir í mínum þingflokki, athugasemdir einkum við tvo þætti varðandi þá tillögu að nefndaskipan sem hér liggur fyrir. Önnur atriði eru kannski þess eðlis að ég sé ekki ástæðu til að nefna þau hér í stuttri ræðu. Það eru fyrst og fremst tvö atriði, annars vegar það sem snertir verksvið fjárlaganefndar og hins vegar það sem snertir verksvið þeirrar nefndar sem eftir breytingu á að heita umhverfis- og samgöngunefnd.

Varðandi fjárlaganefndina vil ég segja að meginathugasemdin lýtur að því að öllum málefnum sem varða ríkisfjármálin sé steypt undir eina nefnd, bæði þeim sem varða tekjuhliðina og eins þeim sem varða útgjaldahliðina. Eins og hv. þingmenn þekkja er þetta í meginatriðum tvískipt í dag. Fjárlaganefnd hefur yfirumsjón með fjárlagagerðinni og þar með ákvörðunum um úthlutun fjármuna úr ríkissjóði á meðan efnahags- og skattanefnd hefur meginhlutverk varðandi tekjuhliðina, um skattalöggjöfina.

Ástæðan fyrir því að ég og fleiri í mínum þingflokki gerum athugasemdir við þetta eru einfaldlega mat á vinnuálagi og möguleikum hinnar nýju nefndar til að komast yfir það verkefni sem henni á að vera falið samkvæmt frumvarpinu eins og það lítur út.

Störf fjárlaganefndar eru afar viðamikil. Á haustþingi þegar fjárlagafrumvarp er til meðferðar í þinginu er frumvarpið og ákvarðanir í því sambandi auðvitað gríðarlega viðamikið viðfangsefni fyrir nefndina, en svo ber til að á sama tíma í þingstörfunum erum við yfirleitt að fjalla um skattalagabreytingar sem líka eru oft á tíðum viðamiklar og taka mikinn tíma. Við höfum áhyggjur af því að með því að steypa þessu saman komi það niður á starfinu að því leyti að möguleikinn til að fara með einstaka þætti, t.d. varðandi skattamálin verði minni en verið hefur.

Staðreyndin er sú að skattalagabreytingar tengjast pólitískri stefnumörkun frá einu ári til annars mjög nánum böndum og það er sama hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd, skattalagabreytingar eru tíðar. Það er staðreynd og ég held að hætt sé við að þær verði það áfram. Og hvort sem núverandi ríkisstjórn verður áfram við völd eða önnur tekur við verða áfram skattalagabreytingar, bæði hvað varðar prósentur og mögulegar tekjur, en líka varðandi ýmis tæknileg atriði sem hafa mikil áhrif.

Ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd, eins og hún hét þá, kjörtímabilið 2003–2007 og kynntist vel störfum þeirrar nefndar sem m.a. hafði skattamálin á sínum snærum. Ég þori að fullyrða að á því árabili voru teknar margar ákvarðanir á sviði skattamála um breytingar en þær voru þó mun minni og færri en þær breytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum tveimur árum. Engu að síður voru þetta mjög tímafrek verkefni og það skipti máli að þingmenn settu sig vel inn í þau mál, gæfu sér tíma til að fjalla um þau. Ég hef áhyggjur af því og fleiri í mínum þingflokki, þar á meðal þeir sem nú sitja í efnahags- og skattanefnd sem nú heitir, að skattahliðin verði dálítið út undan í þessu, að ef fjárlaganefnd fái þetta verkefni verði athyglin fyrst og fremst á niðurstöðutölunum, hversu miklum fjárhæðum tilteknir skattar eigi að skila eða ekki skila til ríkissjóðs en minni á hin miklu og mikilvægu tæknilegu atriði sem koma þarna líka til skoðunar. Þessari athugasemd vildi ég halda til haga en ég tel víst að þetta atriði verði skoðað töluvert í sérnefndinni sem hæstv. forseti hefur boðað.

Ég vildi nefna í þessu sambandi að við getum auðvitað velt fyrir okkur spurningum um breytt vinnubrögð við fjárlagagerð og auðvitað væri æskilegast að fjárlagagerðin á vettvangi fjárlaganefndar væri ekki öll á þeim tiltölulega stutta tíma að hausti eins og hún hefur verið. Við getum haft góð áform um að breyta því. Ég er samt ekkert allt of bjartsýnn á að við náum miklum árangri í því. Frá því að ég kom inn á þing fyrir átta árum hafa menn talað um það og örugglega lengur en þetta fer samt alltaf í sama farið. Fjárlaganefnd vinnur hlutina í tímahraki á haustþingi og sama á við um skattahliðina vegna þess að skattafrumvörpin koma yfirleitt inn þegar búið er að leggja fjárlagafrumvarpið fram, stundum alveg undir lok nóvember eða byrjun desember, eins og við höfum séð síðustu tvö ár, og þá veitir ekkert af að sú nefnd þingsins sem á að fjalla um skattamálin gefi sér tíma til að fjalla um þau og það er óþægilegt, held ég, ef nefndin er á sama tíma líka að velta fyrir sér útgjaldaþáttunum. Þetta er athugasemd sem varðar auðvitað bara eitt tiltekið atriði í þessu frumvarpi en er nokkuð stórt í mínum huga.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í sambandi við nefndaskipanina snertir starfssvið hinnar svokölluðu umhverfis- og samgöngunefndar og það snertir fyrst og fremst það atriði í upptalningu á verkefnum þeirrar nefndar sem varðar auðlindamál. Því er ekki að leyna að margir í hópi okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af því að þarna sé verið að slíta um of í sundur auðlindanýtingu sem auðvitað tengist atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu og þar með verkefnum atvinnu- og viðskiptanefndar og við höfum ákveðnar áhyggjur af því hvernig þeim málum verði fyrir komið. Ég næ ekki, hæstv. forseti, að fara djúpt í þessa umræðu. Í greinargerð með frumvarpinu er nokkur umfjöllun um þetta en ég vil það eitt um það segja að mér finnst sú umfjöllun í greinargerðinni sem tekur á þessum atriðum ekki skýra nægilega vel eða róa mig nægilega vel hvað þessi atriði varðar, þannig að um þessi atriði verður ábyggilega fjallað í sérnefnd.

Ég ætla að nefna það af því að tími minn er senn á þrotum að þær breytingar sem varða eftirlitshlutverk þingsins tel ég almennt til mikilla bóta. Ég held að það sé víðtæk samstaða á þinginu um að það sé æskilegt og nauðsynlegt að efla eftirlitshlutverk Alþingis og ég tel að þær breytingar sem hér liggja fyrir séu til bóta að því leyti og leiði til framfara. Ég velti þó fyrir mér og vil nefna það í þessari umræðu að nefndin sem fær málið til meðferðar þarf að mínu mati að skoða tvö atriði sem varða upplýsingarétt og upplýsingaskyldu ráðherra og stjórnkerfisins gagnvart þinginu. Við þurfum að tryggja að þær takmarkanir sem er að finna í frumvarpinu hvað þessi atriði varða séu ekki of víðtækar. Takmarkanir eru og geta verið nauðsynlegar en gæta þarf að ekki sé hætta á að það verði túlkað með þeim hætti og það leiði í raun til þrengingar. Þetta vildi ég nefna.

Annað sem varðar meðferð trúnaðarupplýsinga þarf auðvitað að skoða. Það hafa komið upp dæmi á síðustu missirum þar sem deilt hefur verið um þessi atriði og það er nauðsynlegt að þær reglur séu skýrðar, að það sé ljóst hvenær heimilt sé að krefjast trúnaðar um einstakar upplýsingar og það verður að gæta þess að þar sé ekki verið að leggja meiri trúnaðarskyldu á þingmenn eða þingnefndir en nauðsynlegt er og lög gera kröfu um.

Hæstv. forseti nefndi líka að það hefðu komið ýmis sjónarmið um fleiri atriði en þau sem er að finna í frumvarpinu, t.d. varðandi breytingar á umræðum. Þar get ég getið þess að í mínum þingflokki hafa helst komið fram athugasemdir við þá liði þingstarfanna sem eru kallaðir störf þingsins og að einhverju leyti kannski óundirbúnar fyrirspurnir. Þarna er um að ræða fyrirkomulag sem að mestu leyti byggir á breytingum frá 2007. Það er mat mitt að óundirbúnar fyrirspurnir hafi reynst vel en liðurinn störf þingsins ekki nægilega vel og að endurskoða þurfi reglur um hann þannig að sá liður í dagskránni, sem er vissulega mikilvægur fyrir almenna pólitíska umræðu um málefni líðandi stundar, njóti sín betur en er í dag.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég geta þess að þó að þetta frumvarp fjalli ekki um það hangir saman við áform okkar um bætt þingstörf, bætt löggjafarstarf og bætt eftirlitshlutverk þingsins aðgangur þingmanna, ekki síst stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) að sérfræðiráðgjöf og aðstoð. Þar tel ég að við getum gert töluvert betur og eigum að gera betur.