139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hinum íhaldssama þingmanni fyrir ágætt svar. En ég vil einfaldlega hvetja til þess að við yfirferð í þingsköpunum núna verði horft til sjónarmiða varðandi það æskilega markmið að reyna að gera Alþingi Íslendinga að fjölskylduvænni vinnustað. Auðvitað er aldrei hægt að koma í veg fyrir ófyrirséð atvik. Lífið væri leiðinlegt ef það væri þannig. Hins vegar er Alþingi Íslendinga ekki eina þingið í veröldinni, menn hafa ýmsar leiðir til að halda utan um þingstörfin og þar mætti t.d. beina sjónum sínum til skoska þingsins sem hefur tekið þessi mál sérstaklega upp og farið yfir sínar reglur og sín þingsköp með tilliti til þessara sjónarmiða. Ég vil hvetja þá hv. þingmenn sem koma til með að setjast yfir þetta frumvarp að reyna að horfa aðeins út fyrir boxið og sjá hvort ekki sé hægt að laga eitthvað. Það er sama í hvaða flokki við erum, á einum tíma erum við í stjórn, á öðrum í stjórnarandstöðu og okkar sameiginlega markmið hlýtur að vera að auka virðingu þingsins. Hún fæst m.a. með því að við sýnum meiri aga í störfum okkar og að við horfum til annarra sjónarmiða en einungis þeirra að vera stöðugt að kýta í þessum ágæta ræðustól.

Þetta voru einfaldlega hvatningarorð til hins íhaldssama fjölskylduvæna þingmanns sem hér ræddi málin.