139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeim fjölgar einkunnunum í hverri ræðu sem flutt er. Auðvitað eru ákveðnir þættir sem við höfum vald á sem hægt er að nota til að ná betra skipulagi í störfum þingsins. Einn er að reynt sé að halda sig að sem mestu leyti við þá starfsáætlun sem ákveðin er í upphafi og er auðvitað endurskoðuð með einhverjum fresti. Eins hjálpar það þingmönnum við að skipuleggja störf sín og samræma þau t.d. fjölskyldulífi að það liggi skýrar fyrir hvernig þingstörfum verði háttað fyrir hverja viku og helst auðvitað hvaða mál verði á dagskrá o.s.frv. Þriðja atriðið, sem er kannski ákveðinn vísir að í þessu frumvarpi, varðar það hvenær frumvörp eru lögð fram á þingi. Við þekkjum öll þá umræðu sem farið hefur fram ár eftir ár um hversu seint stjórnarfrumvörp, jafnvel mikilvæg stjórnarfrumvörp, koma fram á þingi sem þar af leiðandi leiðir til þess að umfjöllun um þau verður bæði knappari og hugsanlega ekki nægilega góð en leiðir líka til þess að þingmenn þurfa þá í auknum mæli að sitja hér á kvöldfundum og vinna utan hins hefðbundna vinnutíma til að vinna upp þann tímaskort sem er fyrir hendi í sambandi við málin. Þannig að viðleitni til þess t.d. að frumvörp séu lögð fram fyrr gefur okkur betri stöðu til að skipuleggja vinnuna.

Þetta eru fjöldamargir þættir. Eitthvað af þessu getum við tekið til skoðunar í sambandi við þetta frumvarp. Annað eru atriði sem forsætisnefnd fyrst og fremst á hverjum tíma þarf að hafa í huga þegar hún skipuleggur þingstörfin til skemmri og lengri tíma.