139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[15:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég kveð mér hljóðs í umræðunni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Eins og fram hefur komið er ég einn af meðflutningsmönnum hæstv. forseta ásamt öðrum þingflokksformönnum á þessu máli.

Mig langar að hefja mál mitt í beinu framhaldi af þeim orðaskiptum sem hér urðu milli tveggja hv. þingmanna í Sjálfstæðisflokknum um hinn fjölskylduvæna vinnustað, Alþingi Íslendinga. Arfleifð bændasamfélagsins er kannski að mörgu leyti gleymd á Íslandi, (Gripið fram í.) illu heilli að sumu leyti, það má segja, en hún hefur lifað ágætu lífi í þingskapalögum Alþingis. Þá riðu höfðingjar til Alþingis að hausti og fóru svo heim til sín um jól og aftur fyrir sauðburð. Ég er svo sem ekki að segja þingmönnum neitt sem þeir ekki vita nú þegar, en það var ekki bara andi þess starfsskipulags sem Alþingi hefur starfað eftir, og gerir að einhverju leyti enn þó að það sé ekki alveg þannig, heldur er það líka í skipulagningu vinnuvikunnar og vinnudagsins. Menn voru kannski ráðherrar fyrir hádegi, þingmenn og þingflokksformenn eftir hádegi og jafnvel ritstjórar dagblaða á kvöldin. Þetta gátu menn gert allt saman af því að þeir þurftu ekki að hugsa um heimili og börn heldur mættu bara í vinnuna, svo var þvegið af þeim og eldað ofan í þá svo það sé bara sagt eins og það var. Í þannig samfélagi búum við ekki lengur.

Það hefur margt breyst til batnaðar í störfum Alþingis á þeim tæpu 12 árum sem ég hef verið hér, en við eigum enn ferð fyrir höndum. Eitt af því varðar það skipulag sem hér er til umræðu, lengd vinnudagsins og fyrirsjáanleika þeirra verkefna sem við glímum við alla daga og vinnuvikur. Við getum gripið til þeirra ráða sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi og krafist þess að mál komi fram í góðan tíma fyrir þinglok og annað slíkt og ég held að það skipti mjög miklu máli. Ég held líka að þær breytingar sem hér eru lagðar til skipti miklu máli en það skiptir ekki síður máli að það verði regla að semja um lengd þingumræðu um hvert mál. Það er aðeins þannig sem hægt er að búa til stundatöflu og tímaáætlun sem stenst. Þannig er það gert í öðrum þingum og þess vegna er hægt að raða niður á dagana og vikurnar þannig að þingmenn viti hvenær mál verða tekin fyrir, hvenær þeir tala, hvenær ekki, hversu langan tíma þeir hafa til að undirbúa sig o.s.frv. Það er einfaldlega vegna þess að um þetta er samið. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur flutt um það tillögu hér á hinu háa Alþingi og vonandi verður hún rædd líka í umfjöllun um þetta frumvarp þó að ég ímyndi mér að á þessu séu nokkuð skiptar skoðanir af ýmsum ástæðum.

Eina leiðin til að búa til stundatöflu á þessum vinnustað sem hægt er að fara eftir og stenst er þessi leið vegna þess að réttur þingmanna er auðvitað að koma hér upp og halda ræður í samræmi við þingskapalög og þá lengist umræða oft úr hófi ef menn hafa ekki náð samkomulagi fyrir fram um lengd hennar. Stundum þarf hún að vera löng, stundum ekki og þá riðlast skipulagið svo langt sem það nær.

Mig langar til að gera nokkur atriði að umfjöllunarefni. Fyrst er það fækkun þingnefnda sem er tímabær og góð af mjög mörgum ástæðum. Ég held að hún ein geti stuðlað að mun betri aðstæðum til vinnu fyrir þingmenn og þá í framhaldinu betri lagasetningu. Það að hver þingmaður geti setið sem aðalmaður í einni nefnd og varamaður í annarri skiptir heilmiklu máli. Auðvitað verða efnissvið nefndanna víðtækari en það er líka allt í lagi því að þingmenn hafa þá betri tíma til að kafa ofan í hvert einasta mál. Mér finnst sú tillaga sem hér er fram komin um þessar sjö nefndir og efnisskiptingu á milli þeirra vel viðunandi. Ég vil líka nefna að það kemur fram í frumvarpinu að hér er lagt til að hafa þessa skiptingu á milli nefnda til bráðabirgða á einu þingi og taka það svo til endurskoðunar. Ég veit að þingmenn hafa ýmsar og margvíslegar skoðanir á þessari skiptingu en ég hygg að í nafni samstöðu og framfara ættum við að standa saman um að gera þetta, taka það svo til endurskoðunar og meta reynsluna af því þegar einn þingvetur er liðinn. Ég mun a.m.k. hvetja til þess.

Í þingflokki Samfylkingarinnar hefur verið mikil umræða um skiptingu málefna milli nefnda og þar hefur t.d. verið nefnt það sjónarmið sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar hvar skattamálin ættu að vera, hvort þau ættu heima í fjárlaganefnd. Þau sjónarmið hafa komið fram að það væri e.t.v. of mikið verið að „ballansera“ ríkisreikningana með þeim hætti. Þetta eru auðvitað málefnaleg sjónarmið sem ber að skoða, en ég hygg hins vegar að það sé hægt að sjá við þeim, ef þannig má að orði komast, í störfum fjárlaganefndar. Ég treysti því að það verði gert þegar þetta er reynt.

Menn verða líka að gæta samkvæmni í einmitt þessu ef við ætlum að nálgast málefnið svona því að ég veit að þingmenn gera athugasemdir við það að færa auðlindamálin undir umhverfis- og samgöngunefnd og vilja hafa auðlindir og atvinnuvegi saman í nefnd. Þá hættum við á svipaða hluti, þ.e. að fara í ósjálfbæra auðlindanýtingu vegna þess að atvinnuhagsmunirnir krefjast þess. Það er alveg hægt að setja dæmið þannig upp líka. Ég vildi benda á þetta í umræðunni, en eins og ég sagði hvet ég til þess að við reynum með öllum okkar mætti og vilja að ná samstöðu um þessa tillögu, reynum hana í einn þingvetur og svo verður hún tekin til endurskoðunar.

Mestu tíðindin í þessu frumvarpi eru þau að hér verður gjörbreyting á samskiptum og vinnulagi stjórnar og stjórnarandstöðu í þingnefndum og á þingi, fyrst og fremst í þingnefndum og vonandi í framhaldinu á þingi líka. Þetta er þvílík bylting að ég er ekki viss um að allur almenningur geri sér grein fyrir því, ég er ekki einu sinni viss um að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir hvað þetta muni þýða verðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að gera þetta frumvarp að lögum á þessu þingi. Hér verður látið af þeirri áratuga löngu íslensku hefð að lýðræðið sé þannig að maður sigri á rothöggi og þá liggi andstæðingurinn í hringnum dasaður, jafnvel rotaður, og megi sig ekki hreyfa vegna þess að meiri hlutinn hafi talað og það sé niðurstaðan. Ég var ekki svo snjöll að finna sjálf upp á þessari samlíkingu, hún kemur frá Túnis, held ég, frekar en Egyptalandi þar sem menn eru að skrifa nýjar stjórnarskrár og gera miklar breytingar og umbætur á stjórnarkerfi. Þar sagði einn höfunda að leiðarljós þeirra væri að í lýðræðissamfélagi sigraði enginn á rothöggi, það gæti ekki verið þannig. Ég held að við getum nefnilega lært þetta af bræðrum okkar og systrum í Norður-Afríku.

Þetta þýðir að samskipti innan nefnda, verkaskipting, nálgun á málefni og annað verður með öðrum hætti en við höfum vanist hér um árabil. Auðvitað starfa þingnefndir misjafnlega, veldur hver á heldur. Sumar eru í rauninni sammála um nær öll mál sem þær afgreiða, aðrar ekki, fer svolítið eftir eðli nefndanna en svona er það bara. Hér erum við með formenn og varaformenn, fulltrúa þingflokka stjórnarandstöðu. Það er lagt til að komið verði á talsmannshlutverki, „rapportör“ heitir það í öðrum þingum, um málefni. Það skiptir líka miklu máli og þingmenn geta náttúrlega verið talsmenn mála hvort sem þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar eða ekki. Þetta held ég — eða ég held ekkert um það, ég er sannfærð um að þessi breyting muni leiða til, eins og ég segi, byltingarkenndra breytinga á starfsháttum Alþingis. Ef við náum þessu frumvarpi í gegn, helst með öllum greiddum atkvæðum, horfum við fram á betri starfshætti, betra löggjafarstarf og þar af leiðandi miklu betri ásýnd á Alþingi Íslendinga. Ég fullyrði að það verður þannig verði þetta frumvarp að lögum.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi helst gera að umræðuefni í frumvarpinu. Svo eru hér mörg smærri atriði. Eins og hæstv. forseti tók fram í framsöguræðu sinni hafa ákveðin efnisatriði ekki verið útkljáð. Það er meiningarmunur á ákveðnum atriðum en þau verða vonandi leyst í sérnefnd sem fjallar um þetta frumvarp og þá held ég að við getum horft bjartsýn fram á veginn á hinu háa Alþingi og á þessum ágæta vinnustað. Vonandi komum við okkur fram á veginn og verðum þá í takt við þau þjóðþing sem við viljum líkjast þar sem þessir starfshættir hafa verið stundaðir árum og sumpart áratugum saman. Eins og ég segi, forseti, bind ég vonir við að þetta frumvarp verði að lögum og fullyrði að það muni leiða til mikilla umbóta í löggjafarstarfinu og á hinu háa Alþingi.