139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarp þetta er komið á dagskrá. Ég ásamt öðrum þingflokksformönnum og hæstv. forseta Alþingis erum flutningsmenn að frumvarpinu. Það hefur verið tekið til umfjöllunar á undirbúningsstigi á allnokkrum fundum í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingflokkurinn var samþykkur því að það yrði lagt fram þó að þar, eins og í öðrum þingflokkum, séu margvísleg sjónarmið um einstök atriði í frumvarpinu sem menn áskilja sér allan rétt gagnvart og munu að sjálfsögðu koma upp í frekari vinnslu í þinginu, í þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar.

Ég get tekið undir það sem kom fram í framsöguræðu hæstv. forseta og mörgu því sem fram kom í ræðum hv. þm. Birgis Ármannssonar og hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég ætla fyrst að ræða um breytingar á nefndarskipuninni, sem ég tel vera mjög tímabærar. Ég tel mikilvægt að Alþingi skipuleggi störf sín miðað við þarfir sínar og út frá sínum forsendum en ekki því hvað gerist í Stjórnarráðinu og hvernig einstaka ráðuneytum er skipt. Það er kunnara en frá þurfi að segja að vinnuálag í einstökum nefndum endurspeglast ekki endilega eftir því hvernig ráðuneytin eru skipuð eða hvað þau eru mörg. Stundum hefur verið talað um að sum ráðuneyti séu þung, t.d. þau sem taka til sín stóran hluta fjárlaga. Það þýðir ekki endilega að málafjöldinn sem frá þeim kemur inn í þingið sé samsvarandi stórt hlutfall eða jafnviðamikill í meðförum. Alþingi þarf fyrst og fremst að skipuleggja nefndarvinnuna út frá sínum forsendum og sínum þörfum og það tel ég að sé gert með þeirri hugsun sem liggur á bak við þessa nefndarskipun.

Ég geri mér alveg grein fyrir að það eru að sjálfsögðu margar skoðanir á því nákvæmlega hvernig verkaskiptingin eigi að vera á milli nefnda og hvaða einstök mál eigi að vera hvar, og við rennum auðvitað svolítið blint í sjóinn með það að álag í nefndum, eins og þeim er stillt upp í frumvarpinu, verði ámóta mikið. En þá er líka að rifja það upp að álag í málaflokkum getur verið mjög mismunandi frá einu ári til annars. Það er því ekki alveg á vísan að róa í því efni en ég tel mikilvægt að á þetta verði látið reyna.

Það er einkum getið um tvö atriði sem komu til sérstakrar umræðu á fundum forseta með þingflokksformönnum, þ.e. verkefni umhverfis- og samgöngunefndar annars vegar og hins vegar skattamálin Ég vil segja um umhverfis- og samgöngunefndina og það sem fjallað er um auðlindamálin í því efni, að gerð er grein fyrir því í greinargerð með 4. gr. frumvarpsins. Þar er skýrt hvað átt er við með auðlindamálum en þar segir, með leyfi forseta:

Með auðlindamálum „er átt við rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála almennt, svo sem rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða o.s.frv. Ákvarðanir um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar verða hins vegar á málefnasviði atvinnuvega- og viðskiptanefndar samkvæmt frumvarpinu.“

Ég tel frá mínu sjónarmiði að mikilvægt sé að viðhalda þessari tvískiptingu, að hin vísindalega ráðgjöf byggð á rannsóknum sé hjá umhverfisnefnd en nýtingarstefnan, nýtingin sjálf verði hjá atvinnuveganefndinni. Þarna koma saman ólíkir hagsmunir og ólík viðhorf og eðlilegt er að þau fái umfjöllun á tveimur ólíkum stöðum í þinginu. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um það að ef allt saman væri á einni hendi þá yrði umfjöllunin að sjálfsögðu miklu einsleitari og færri sjónarmið og hagsmunir má segja sem fengju þá að komast að máli.

Varðandi skattamálin sérstaklega get ég alveg tekið undir að það er álitamál hvort þau eiga að vera í fjárlaganefnd eða atvinnuvega- og viðskiptanefnd. Ég vil þó geta þess að atvinnuvega- og viðskiptanefnd er orðin býsna þung og umfangsmikil með þeirri verkaskiptingu sem hér er lögð til nú þegar. Skattamálin eru auðvitað stór hluti af ríkisfjármálunum í heild og er önnur hliðin á þeim peningi. Skattamálin og fjárlögin eru auðvitað stór hluti af efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar. Þannig horfi ég á það samhengi. En ég vil að sjálfsögðu alls ekki útiloka að við frekari yfirferð geti það mál tekið einhverjum breytingum ef menn geta fundið leiðir sem sátt getur tekist um.

Ég vil líka nefna það að ég tel að sú leið sem hér er farin, að leggja til að forustuhlutverkum í þingnefndum sé skipt á milli þingflokka í hlutfalli við styrk — ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að ég tel að þar sé um gríðarlega miklar breytingar að ræða og jafnvel meiri en menn alveg átta sig á. Ekki aðeins að því er varðar samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu, sem er hluti af því máli, en líka í því að greina betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Það tel ég vera mjög mikilvægan þátt í þessari tillögu að það er þingið sem skipar sínum málum út frá því hvernig það er skipað. Og þá megum við að sjálfsögðu ekki gleyma því að allir 63 þingmenn hafa sama lýðræðislega umboð. Þeir hafa allir verið kjörnir til setu á löggjafarþinginu og það er alveg sama hvort flokkar þeirra eru í ríkisstjórnarsamstarfi eða ekki frá einum tíma til annars. Þeir eiga sinn rétt og kjósendurnir sem kusu þá þingmenn eiga líka þann rétt að eiga hlutdeild í stjórn þingsins með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Að sjálfsögðu verður það síðan alltaf þannig á endanum í atkvæðagreiðslum að skiptar skoðanir verða um einstök mál og meiri hlutinn í hverju máli ræður niðurstöðu þess þegar á hólminn er komið. En það er mjög mikilvægt að mínu viti fyrir vinnuna í þinginu og í þingnefndum að þetta fyrirkomulag sé haft á.

Ég vil nefna fleiri atriði, t.d. eftirlitshlutverkið sem tæpt hefur verið á. Það er mikilvægt í þessu samhengi og að koma því í fastan farveg með þeirri skipun sem lögð er til með sérstakri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem á að fjalla um ýmiss konar skýrslur, um málefni Stjórnarráðsins í heild, um skýrslur Ríkisendurskoðunar, skýrslur umboðsmanns Alþingis. Ég tel að á þann hátt fái þau mál betri og markvissari yfirferð af hálfu þingsins og meira rými en gefist hefur rúm til hingað til. Það tel ég vera í fyllilegu samræmi við þau markmið sem komu fram í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var á síðasta hausti með 63 atkvæðum, að gera endurbætur á starfsháttum stjórnsýslunnar og þar með talið á starfsháttum löggjafarsamkundunnar.

Það að koma sér upp fyrirkomulagi sem kallað er talsmannakerfi, þ.e. að þegar þingmál kemur fram og kemur til umfjöllunar í nefnd þá sé tilnefndur talsmaður viðkomandi máls, framsögumaður mætti kalla það. Það þarf ekki endilega að vera formaður eins og er í langflestum tilvikum í dag. Það getur verið annaðhvort varaformaðurinn eða jafnvel einhver enn annar nefndarmaður eftir atvikum. Einnig væri hægt að fara þá leið, sérstaklega í málum sem vitað er í upphafi að eru ágreiningsmál, að skipa tvo framsögumenn, þ.e. framsögumann og svokallaðan skuggaframsögumann, eins og þekkist í sumum þingum, þegar vitað er að halda þarf utan um a.m.k. tvö ólík sjónarmið í vinnslu í nefndinni. Þetta þarf auðvitað að þróa. Um þetta þarf væntanlega að setja einhverjar frekari reglur sem við getum þá rætt um í sérnefndinni og svo í framhaldinu hvort það væri eðlilegt að forsætisnefnd setti einhverjar frekari reglur um starfshætti í nefndum hvað þetta snertir.

Ég vil segja í framhaldi af umræðunni um starfshætti Alþingis, um stjórnmálamenninguna, um það hvernig tími okkar er nýttur, fjölskylduvænan vinnustað o.s.frv., að ég tek að sjálfsögðu undir það að við megum margt bæta í þeim efnum og gera þennan vinnustað fjölskylduvænni en hann er í dag. Á hitt verður þó að líta að Alþingi er mjög sérstakur vinnustaður. Þetta er löggjafarþing og það liggur eiginlega í eðli málsins að það getur ekki alveg lotið sömu lögmálum og margir aðrir vinnustaðir að vera bara opinn frá 9 til 5, það segir sig nánast sjálft. En að sjálfsögðu getum við gert betur en verið hefur. Til dæmis mætti reyna að skipuleggja nefndarfundatíma og þingfundartíma á annan hátt en gert hefur verið til þessa. Ég er dálítið hugsi yfir því að þingfundir byrja yfirleitt aldrei fyrr en svolítið er liðið á hinn hefðbundna vinnudag, kannski kl. tvö, þegar liðinn er tveir þriðju af venjulegum vinnutíma. Þá er ekki langur tími ef menn ætla að halda sig við það að vera búnir kl. fjögur eða fimm til að ræða mál, sérstaklega ekki ef langur tími fer í umræður um störf þingsins, ég tala nú ekki um um fundarstjórn forseta. Það fer stundum langur tími í að ræða um atkvæðagreiðslur til viðbótar við atkvæðaskýringar sem er sérstakur liður. Þetta tel ég að þurfi allt að taka til skoðunar. Ég er sammála því viðhorfi að frumvarp sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur flutt um að marka skuli þingmálum ákveðinn umræðutíma í þingsal, sé mjög jákvætt innlegg í þessa umræðu. Mér finnst eðlilegt að það sé rætt í þeirri þingnefnd sem tekur þetta mál til umfjöllunar, hvort hægt sé að nýta eitthvað úr því frumvarpi inn í þetta ef menn vilja skoða það frekar.

Það er alveg ljóst að sum mál og kannski flest mál í fjölda talið eru þess eðlis að um þau er góð sátt og samstaða þegar þau koma úr þingnefndum og hægt er að ætla á þau einhvern tiltekinn umræðutíma. Önnur mál eru viðameiri, stundum flókin og þurfa langan umræðutíma. Stundum eru þau mjög umdeild í hinu pólitíska landslagi og þurfa þar af leiðandi mjög ríkulegan umræðutíma. Þetta er auðvitað hægt að reyna að vinna fyrir fram, að áætla tíma. Ég er sammála því líka að ógerningur er að skipuleggja vinnuvikuna fyrir fram nema einhver regla sé á þessum hlutum af einhverju tagi, og þó að ég hafi ekki hér og nú neina patentlausn á því, þá er það alveg ógerningur. Við upplifum það hvað eftir annað að mál sem eru á dagskrá komast ekki að og það eru látlausir fundir. Þingflokksformenn eru á þönum að funda um það hvort hægt sé að ná samkomulagi um að ljúka dagskránni á einhverjum tilteknum tíma, taka út mál til að greiða fyrir öðrum og þau fara þá yfir á næsta dag eins og lög gera ráð fyrir og þar með er skipulag þess dags sem var kannski til í drögum farið úr böndunum. Ég tel að það sé okkur öllum fyrir bestu að reyna að ná utan um þessi mál, umræðutímann ekki síst, með einhverju móti.

Ég hef verið þingmaður í stjórnarandstöðu og ég skil það vel að oft eru það kannski einu tækifærin, tæki stjórnarandstöðunnar til að láta að sér kveða og jafnvel hafa áhrif á gang mála. En ég tel að með þeim breytingum sem gerðar eru m.a. á nefndakerfinu og hlutdeild bæði stjórnar og stjórnarandstöðu í forustu í nefndum geti það breyst þannig að stjórnarandstaðan á hverjum tíma hafi ríkari möguleika til að hafa áhrif á það hvernig mál þróast og hvernig þau koma úr nefndum, hvernig þau eru unnin, hverjir eru kallaðir til samráðs og til umsagnar og á fundi og annað slíkt.

Ég tel að það séu mörg sóknarfæri í þessu frumvarpi hvað það snertir. En auðvitað er það ekki fullskapað Við munum ekki um leið og þessi lög taka gildi, ef frumvarpið verður samþykkt, vera komin inn í einhvern nýjan veruleika og með nýtt forrit, nýja hugsun eða nýtt hugarfar. Það mun áreiðanlega taka tíma og kannski þarf að hafa aðlögun á einhverjum þáttum í frumvarpinu, ég skal ekkert um það segja, að menn taki einhverja þætti og láti þá taka gildi að einhverjum tíma liðnum og jafnvel að endurskoða fleiri þætti en bara nefndaskiptinguna eftir ár ef svo ber við að horfa. Ég tel að við séum alla vega að leggja af stað í leiðangur sem getur bætt mjög starfshætti á Alþingi og þar með löggjafarstarfið. Kannski eigum við einmitt að gefa nefndarvinnunni meira svigrúm, hafa stundum meira af opnum nefndarfundum þannig að málflutningur manna sé ekki bara í ræðustól, þá er ég að meina málflutningur sem birtist þjóðinni, hann sé ekki aðeins í ræðustól heldur líka á nefndarfundum þar sem menn eru að kalla eftir upplýsingum, rökræða við gesti o.s.frv.

Ég tel því að margt sé í þessu sem gefur okkur mikla möguleika í því efni og vonandi verður það til þess að starfið í þingsal verði fegurra og það má alveg við því held ég að ég geti sagt. Með því að afgreiða þingskapafrumvarpið í þessum búningi eða með einhverjum breytingum sem kunna að verða í meðförum þingsins séum við að fara eftir því sem okkur var uppálagt og við gerðum sjálf með þingsályktunartillögunni síðasta haust, að bæta störf Alþingis, bæta löggjafarvinnuna og bæta menninguna, hina pólitísku menningu sem þarf á því að halda að mínu viti.