139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[16:40]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætlaði bara að sitja og hlusta í dag á framsögu forseta og umræður en ég stóðst eiginlega ekki mátið að koma upp í ræðustól og leggja til nokkur hlý orð í veganesti með þessu frumvarpi. Ég þakka forseta fyrir framsöguna og að halda utan um þetta starf og öllum öðrum sem hafa komið að þessari vinnu, bæði starfsfólki þingsins og þingmönnum, sem hafa að mínu mati unnið mjög gott starf.

Ég er ekki 100% sammála öllu en í megindráttum er ég mjög ánægð með þetta. Það er ákveðið svigrúm til endurskoðunar og eins eftir að lögin taka gildi er svigrúm til að endurskoða nefndaskipan og sjá hvernig hún gefst.

Ég fagna frumvarpinu. Það er um margt byltingarkennt miðað við það þing sem við búum við. Ég hlakka til að takast á við að vinna eftir því. Það getur vel verið, eins og einhverjir hafa nefnt, að það þurfi jafnvel að senda þingmenn í endurmenntun til að geta unnið eftir því. Það getur verið að það sé rétt en ég held að sú endurmenntun þurfi hvort eð er að fara fram. Því fyrr, því betra.

Það hefur glatt mig mjög við umræðuna hvað margir þingmenn hafa notað orðin minni hluti og meiri hluti í stað þess að tala um stjórn og stjórnarandstöðu. Ég kýs að nota þau orð vegna þess að mér finnst orðin stjórn og stjórnarandstaða mjög gildishlaðin og fela eiginlega í sér ákveðna fordóma gagnvart þeim sem eru í meiri hluta og minni hluta um þeirra hlutverk.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og hlakka til að vinna þetta mál áfram.