139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal yfirferð yfir afstöðu sína í þessu máli. Við höfum nú oft verið sammála, ég og þingmaðurinn, varðandi viðhorf til almennra aðgerða vegna skuldavanda heimila. Ég hef farið yfir afstöðu mína í þessu máli. Ég vil byrja á að segja varðandi stöðu leigjenda að þá deili ég áhyggjum þingmannsins af stöðu þeirra. Ég vil samt hugga hann með því að í samráðshópi velferðarráðherra er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu leigjenda á vinnumarkaði, og í kjarasamningum er jafnframt verið að ræða mjög mikið húsnæðismál, þar með talið húsaleigubætur, eftir því sem mér skilst.

Varðandi þessa 110% aðgerð, sem sannarlega er dýr og hægt að nota fjármunina í ýmislegt annað, það má segja um flestallar aðgerðir stjórnvalda, þetta er alltaf hagsmunamat. Þarna var búinn að vera mikill þrýstingur lengi. Það var farið yfir þessi mál mjög ítarlega og niðurstaðan varð sú að þetta væri jákvæð aðgerð. Ég ætla að taka það fram að þessi aðgerð nær til 60.000 heimila. Greiðslubyrði af húsnæðislánum mun lækka hjá 60.000 heimilum vegna þessara aðgerða og á hinn bóginn mun þetta hafa áhrif til lækkunar á húsnæðismarkaði og liðka fyrir viðskiptum á þeim markaði.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki mikið til unnið að liðkað sé fyrir á markaðnum þannig að fólk geti flutt sig um set. Það er búið að vera frost á húsnæðismarkaði í þrjú ár, það er uppsöfnuð þörf. Fólk hefur ekki getað hreyft sig úr húsum sínum, þetta hefur valdið miklum vandkvæðum fyrir sumar fjölskyldur. Telur hv. þingmaður þetta ekki efnahagslega mikilvægt skref?