139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir því sem mér er kunnugt vantar peninga í ríkissjóð. Það er verið að leita leiða með logandi ljósi til að afla þeirra. Hvar er hægt að skattleggja til að ná í tekjur? Hvar má skera niður í velferðarkerfinu til að minnka gjöld? Hér er verið að setja 15 milljarða í lækkun á skuldum fólks sem ekki þarf á því að halda. Það er í skilum, það gæti klofið þetta öðruvísi.

Það er rétt að til er samráðshópur um stöðu leigjenda o.s.frv. Ég flutti fyrir mörgum árum þingsályktunartillögu um húsnæðisbætur í staðinn fyrir húsaleigubætur og vaxtabætur sem ekki fékk mikinn hljómgrunn. Það er hópur í gangi, jú, jú, vissulega. Það er verið að rabba og ræða þessi mál og á meðan borga leigjendurnir sína leigu eða þurfa að flytja út af því þeir eiga ekki fyrir leigunni, bornir út í hrönnum o.s.frv. Það er verið að ræða málin aftur og aftur og endalaust. Þegar kemur að stykkinu og þarf að fara að setja eitthvað í húsaleigubæturnar, sem er eins og ég hef margoft sagt arfavitlaust, þá vantar enn meiri pening af því 15 milljarðarnir eru farnir, þá vantar bara enn meiri pening. Ég sé ekki lausn á því, hvernig bæta eigi stöðu leigjenda.

Þetta er vissulega efnahagsleg aðgerð, hún gerir fólki sem er mikið skuldsett kleift að selja eignina sína sem það getur ella ekki. Mikið af þessum niðurfellingum, 70%, eru úti á landi. Þar hefur það verið erfitt, alla tíð frá því ég man eftir mér, að selja eignir fyrir það verð sem kostaði að byggja þær. Fólk hefur ekki getað flutt utan af landi. Það er leyst jú, jú, en þurfti að leysa það núna þegar staðan er svona óskaplega slæm og staða margra sem eru atvinnulausir og leigja er mjög alvarleg?