139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi stikkorðið „upplýsingar“ — upplýsingar um stöðu heimilanna. Það hafa menn verið að biðja um síðustu tvö árin, alla stjórnartíð hæstv. ríkisstjórnar, en hefur ekki náð fram. Nú liggja fyrir Alþingi, og eru í hv. efnahags- og skattanefnd, tvær tillögur og frumvörp um þetta, bíða þar og bíða og ekkert gerist. Á meðan vitum við lítið. Við vissum t.d. ekki að 70% af þeim íbúðum sem nytu 110%-leiðarinnar væru úti á landi. Það kemur bara allt í einu í ljós þegar búið er að taka ákvörðunina, búið að gera samkomulag. Menn eru sem sagt stöðugt að sigla um skerjagarðinn og það er búið að draga fyrir alla glugga. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera vegna þess að þeir hafa engar upplýsingar. Þeir hafa ekki upplýsingar um stöðu skuldara. Þeir hafa ekki upplýsingar um stöðu fólks úti á landi og þeir hafa síst af öllu upplýsingar um leigjendur. Við vitum ekkert um leigjendur, ekki neitt. Við vitum ekki einu sinni hvað þeir eru margir og hvað þeir eru að borga í leigu, það vitum við ekki.

Þessi upplýsingafrumvörp liggja í hv. efnahags- og skattanefnd og bara bíða þar í rólegheitunum. Og þessi samráðshópur sem á að fjalla um leigjendur, hann hittist öðru hverju og tekur örugglega einhverjar ákvarðanir einhvern tímann. Og þá vantar pening og menn óttast að það hækki leiguna o.s.frv. Og áfram situr fólkið, missir íbúðina sína, er borið út. Það kom fram á fundi félagsmálanefndar, frá sýslumanninum í Keflavík, að flestallir sem eru bornir út eru leigjendur sem geta ekki borgað leiguna sína. Þar kemur það í ljós. Og hvað gerir fólk sem er með börn og stendur allt í einu úti á götu af því það er búið að bera það út? Hvað skyldi það gera?