139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar við lok fyrri umr. um þessa ágætu þingsályktunartillögu að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna á þeim fjölmörgu dögum sem hún hefur fengið til ráðstöfunar í þinginu. Það er ljóst að ekki er einhugur um að afgreiða þetta mál á jákvæðan hátt í þinginu en ég tel gríðarlega mikilvægt að menn skiptist á skoðunum hér líkt og gert hefur verið og það komi til atkvæðagreiðslu um þessa tillögu í þinginu þannig að það liggi fyrir hvort menn standi enn að þeirri aðildarumsókn sem send hefur verið til Brussel eða hvort svo sé komið, líkt og ég tel rétt að gera, að menn séu komnir á þá skoðun að best sé fyrir íslensku þjóðina að draga umsóknina til baka.

Ég hef margoft sagt að ég skil ekki að þeir aðilar sem eru ósammála mér og telja að hagsmunum Íslands sé best borgið innan Evrópusambandsins geti verið ánægðir með það ferli sem þetta mál hefur verið sett í. Við sjáum það best á atburðum undangenginna daga hversu mikið flækjustig er á þessu máli innan ríkisstjórnarflokkanna. Nú hafa tveir þingmenn gengið úr þingflokki annars stjórnarflokksins, þ.e. Vinstri grænna, hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason, m.a. vegna þess hvernig haldið hefur verið á þessu máli, aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, hvernig gengið hefur verið fram í því máli, með hvaða hætti komið hefur verið fram við hv. þingmenn og með hvaða hætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist hafa verið sniðgenginn í ákveðnum málum.

Ég tel að við eigum að gera það besta sem hægt er að gera í stöðunni eins og er, að draga aðildarumsóknina einfaldlega til baka, og þegar og ef einhvern tímann verða þeir tímar uppi í landinu að raunverulegur vilji sé til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar inn verði hægt að fara af stað að nýju og þá á réttum forsendum. Ég tel að allir hljóti að sjá, hvorum megin sem afstaða þeirra er gagnvart aðild Íslands að Evrópusambandinu, að málið er í öngstræti og það ferli sem sett hefur verið af stað er engum til góðs. Ég tel mjög mikilvægt að þessi tillaga komi til atkvæða í þinginu.

Ég vonast síðan til að málið fái góða umfjöllun í utanríkismálanefnd og að menn skiptist þar heiðarlega á skoðunum, líkt og menn hafa gert hér í þingsalnum í umræðunni um þetta mál, og haldi áfram að geta talað án gífuryrða um málið. Það hefur tekist í þessari umræðu að mestu leyti og verið mjög ánægjulegt að fylgjast með því. Stöku þingmenn hafa virkilega sannfæringu fyrir því að við Íslendingar eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þann kostinn að sitja undir allri umræðunni, ég þakka sérstaklega fyrir það. Það er ánægjulegt að sjá að menn hafa áhuga á þessu.

Frú forseti. Ég tel að það sé ekki fleira sem segja þarf í þessu máli. Það er kominn tími til að vinna málið í nefndinni og koma síðan með það í atkvæðagreiðslu. Ég vona svo að tillaga mín um að draga aðildarumsóknina til baka hljóti brautargengi í þinginu.