139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir svarið. Þingmennirnir tveir sem fóru úr þingliði vinstri grænna höfðu uppi stór orð. Töluðu um foringjaræði og sitthvað fleira sem er ekki beint jákvætt og ekki í samræmi við lýðræði.

Það sem mig langaði til að vita er að nú þegar eru í boði mjög miklir peningar í styrki og staðan í landinu er mjög slæm — marga vantar vinnu, það er verið að lofa verkefnum hér og þar, forritarar geta hannað ný kerfi o.s.frv. — getur verið að menn stíli upp á að þessir miklu styrkir smyrji vélina þannig að viðhorf almennings til aðildar að Evrópusambandinu breytist vegna þess að menn eru hreinlega í svo slæmum málum að þeir sjái það sem tækifæri að samþykkja aðild því að þá fái þeir vinnu við alls konar verkefni sem er búið að lofa? Mun þetta hafa hættuleg áhrif á afstöðu manna til aðildar að Evrópusambandinu? Þetta er eitt af því sem ég óttast. Svona miklir peningar hafa alltaf mikil áhrif. Það hafa reyndar komið peningar í gegnum tíðina í gegnum háskólasamfélagið frá Evrópusambandinu í alls konar verkefni og styrki en nú koma enn fleiri loforð um þetta og hitt, heimsóknir og skemmtireisur og annað slíkt, frá Evrópusambandinu sem ég tel að muni hafa nokkuð mikil áhrif.