139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

skattamál.

[15:07]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra segir að ekki standi til að fara í stórfelldar skattahækkanir. Ég vil gjarnan fá skýrara svar við því hvort við eigum von á því á hausti komanda að frekari álögur verði lagðar á íslenskar fjölskyldur en nú er orðið. Það er fróðlegt að heyra að stefnt sé að því að þessi skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði gerð opinber en aðalspurningin er auðvitað þessi: Eiga menn von á því á komandi hausti að um frekari skattahækkanir á fjölskyldur verði að ræða? Við skulum athuga að það er ekkert borð fyrir báru.

Tilefnið er ekki síst það að hæstv. forsætisráðherra sagði í síðustu viku að stefna ríkisstjórnarinnar í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins væri að lækka skatta. Hér rekst þetta hvað á annars horn þannig að það er nauðsynlegt að heyra skýrar hjá hæstv. fjármálaráðherra hvort við eigum sem sagt von á því að á hausti komanda muni ríkisstjórnin enn og aftur koma með tillögur um skattahækkanir á íslenskar fjölskyldur sem hafa ekki tök á því að greiða krónu meira í skatt.