139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til að fagna því ef hæstv. fjármálaráðherra gefur ádrátt um það hér að höftin muni vara í skemmri tíma en í fjögur til fimm ár vegna þess að við höfum heyrt það frá forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs að þessi tíðindi sem Seðlabankinn og stjórnvöld hafa flutt okkur um allt að fimm ár í viðbót í viðjum hafta eru mjög slæm fyrir íslenskt atvinnulíf. Við skulum horfast í augu við það.

Ég tek líka undir með hæstv. ráðherra þegar hann talar um stöðugleika og trúverðugleika. Það er akkúrat það sem okkur vantar í dag. Í fyrsta lagi vantar okkur pólitískan stöðugleika, við búum við ríkisstjórn sem nær daglega gefur misvísandi skilaboð um stefnu í mikilvægum málum. Við búum því við pólitískan óstöðugleika sem við þurfum að vinda ofan af. Þess vegna er (Forseti hringir.) trúverðugleiki okkar nær enginn þegar kemur að alþjóðasamfélaginu vegna þess að við búum við ríkisstjórn sem talar út og suður í mismunandi málum og virðist hafa það (Forseti hringir.) eitt að markmiði að halda lífinu í sjálfri sér.