139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[15:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu um þetta frumvarp. Margir eru í þörf fyrir niðurfærslu á skuldum en ég get ekki samþykkt þetta frumvarp vegna þess óréttlætis sem felst í fríeignarmarkinu. Samkvæmt því munu þeir sem eiga andvirði tvennra mánaðarlauna á bankabók fá meira niðurfellt en þeir sem neyðast til þess að eiga ódýran bíl. Með öðrum orðum fá einstaklingar sem ekki eiga börn meira niðurfellt en einstætt foreldri sem neyðist til þess að eiga bíl til að geta samþætt atvinnu og fjölskyldulíf.

Þetta er óásættanlegt og sýnir vel skilningsleysi stjórnarmeirihlutans á skuldavanda heimilanna. (BirgJ: Heyr, heyr.)