139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[15:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að styðja þetta mál vegna þess að ég held að það sé mikilvægt að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs sitji við sama borð og aðrir.

Ég verð hins vegar að taka undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur og hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, það er hvergi nóg að gert. Ég verð líka að segja að þær upplýsingar sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir færði fram hér í ræðustól komu nokkuð á óvart, engu að síður held ég að það sé mikilvægt að viðskiptavinir sjóðsins fái sömu úrlausn, ef hægt er að tala um úrlausn í þessu tilfelli, og aðrir. En það er hvergi nóg að gert, frú forseti, og við hljótum að krefjast þess að áfram verði unnið að því að lækka skuldir heimilanna af sanngirni.