139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[15:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að fréttir af broti fyrirtækisins Becromal á ákvæðum starfsleyfis síns um losun efna í Eyjafjörð hafi vakið ugg í brjósti margra. Íbúum í Eyjafirði og á Akureyri var sérstaklega brugðið við þessar fréttir og ekki þá síst af framferði stjórnenda fyrirtækisins eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að sín viðbrögð við fréttunum hefðu fyrst og fremst verið undrun yfir því að þetta skuli hafa getað gerst og sömuleiðis vonbrigði yfir því að þetta hafi gerst með þeim hætti sem það gerðist. Ég held að þetta sé ágætislýsing á viðbrögðum annarra íbúa svæðisins vegna þessa máls.

Í aðdraganda þess að fyrirtækið hóf starfsemi sína á Krossanesi rétt utan við Akureyri var mikil umræða meðal Eyfirðinga um þetta mál frá ýmsum hliðum. Flestir fögnuðu því að til stæði að reisa verksmiðju af því tagi sem þarna var um rætt, verksmiðju sem á að vera græn og góð eins langt og það nær og fyrirtæki sem var ekki bara ágæt viðbót við atvinnulífið á svæðinu heldur og ekki síður kærkomin nýjung í þá umræðu sem oft hefur einkennt umræðu um atvinnumál á Norðurlandi.

Í fundargerðum nefnda og stjórna Akureyrarbæjar frá þessum tíma má glöggt sjá að miklar vonir voru bundnar við starfsemi Becromal og var því sérstaklega fagnað á fundi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þegar samningar náðust við fyrirtækið um uppbyggingu verksmiðjunnar, enda samþykkti bæjarstjórn einum rómi þann samning með atkvæðum allra 11 bæjarstjórnarmanna. Tveir fulltrúar Vinstri grænna í bæjarstjórn lögðu hins vegar fram bókun þar sem m.a. kemur fram að þeir höfðu þann fyrirvara á sinni samþykkt að meðhöndlun og losun mengandi úrgangsefna frá verksmiðjunni og allir aðrir umhverfistengdir þættir verkefnisins yrðu leystir þannig að ýtrustu umhverfisverndarsjónarmiða yrði gætt.

Einnig kemur fram sá fyrirvari við stuðning þeirra að allir aðrir umhverfisþættir, þar á meðal sem snúa að bæjarfélaginu, yrðu vel af hendi leystir og að því gefnu studdu bæjarfulltrúar þennan samning og uppbyggingu fyrirtækisins á svæðinu. Í tvígang eftir þetta var leitað álits bæjaryfirvalda á Akureyri á því hvort framkvæmdir Becromal skyldu háðar umhverfismati. Í bæði skiptin var það ekki álit meiri hluta skipulagsnefndar og bæjaryfirvalda á Akureyri að slíkt væri nauðsyn, en sömuleiðis í bæði skiptin mótmæltu því fulltrúar Vinstri grænna, bæði í nefndum og í bæjarstjórn, og töldu að fyrirtækið ætti að lúta umhverfismati.

Í starfsleyfi fyrir rekstrinum er ítarlega fjallað um umhverfisþættina og þær skyldur sem fyrirtækið tekur sér á hendur með því að undirgangast þau skilyrði sem þar koma fram. Það er alveg ljóst að stjórnendur fyrirtækisins hafa brotið gegn því starfsleyfi. Þannig hefur framkvæmdastjóri þess játað að hafa lengi vitað af því að hreinsunarbúnaður verksmiðjunnar hafi ekki virkað sem skyldi þegar álagið á hann er sem mest og jafnframt gengist við því að hafa farið á svig við skilyrði starfsleyfisins. Það er auðvitað alveg dæmalaust og nánast óskiljanlegt að stjórnendur fyrirtækis af þessari stærðargráðu og í þessum geira skuli haga sér með þeim hætti sem þarna virðist hafa gerst. Ég get ekki heldur ímyndað mér að eigendur eða stjórn þessa fyrirtækis sem hér um ræðir séu ofsakátir yfir því sem þarna gerðist enda er þetta hvorki til að bæta ímynd fyrirtækisins né til að lýsa því fyrir hvað þetta fyrirtæki vill þó standa og á skilið að standa fyrir.

Ég ætla ekki að halda því hér fram að það sem þarna gerðist hafi skapað stórkostlega hættu eða stefnt lífríki Eyjafjarðar í mikinn voða að þessu sinni. Stóra slysið er að stjórnendur fyrirtækisins brugðust trausti bæjarbúa, brugðust umhverfinu og þeim skilyrðum, skrifuðum og óskrifuðum, sem þeir undirgengust sjálfir af hálfu samfélagsins. Í því sambandi breytir í sjálfu sér litlu hver niðurstaða mælinga í Eyjafirði var um helgina, jafnánægjuleg og hún þó var, það ber að ítreka það og undirstrika, það varð samt trúnaðarbrestur milli íbúa og yfirvalda annars vegar og stjórnenda fyrirtækisins hins vegar. Það er stóra slysið sem þarna má segja að hafi orðið.

Út í frá virðast viðbrögð Umhverfisstofnunar stundum veik og fálmkennd við fyrstu sýn og fyrir okkur sem fylgjumst með úr fjarlægð. Það þarf ekki að vera þannig en maður fær það samt á tilfinninguna og ég veit að það á við fleiri en mig. Við skulum samt ekki falla í þá gryfju að kenna eftirlitsaðilanum um brot annarra eða dreifa athyglinni með einhverjum öðrum hætti frá kjarna málsins. Aðalatriðið er að þarna varð ekki það umhverfisslys sem margir héldu að yrði en þarna varð trúnaðarbrestur, þarna voru viðhöfð vinnubrögð sem við eigum ekki að líða og eigum að reyna að koma í veg fyrir.

Ég spyr umhverfisráðherra hver viðbrögð ráðuneytisins verða við þessu máli og hafa orðið og hvort ráðherrann telji að bæta þurfi laga- og regluverk til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Sömuleiðis spyr ég umhverfisráðherra hvort við tökum umhverfismálin nægilega alvarlega, m.a. í þessum sal og í regluverkinu og lagaverkinu (Forseti hringir.) í kringum umhverfisvernd og umhverfisþætti fyrirtækja, og hvort Umhverfisstofnun hafi yfir nægilegum tækjum og tólum að ráða til að geta komið í veg fyrir að slíkt gerist aftur (Forseti hringir.) sem gerðist á Krossanesi við Eyjafjörð.