139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[15:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessari uppákomu, ef svo má að orði komast, vegna brots fyrirtækisins Becromal á starfsleyfi. Mig langar fyrst að nálgast þessa umræðu með þeim hætti að við beinum huganum aðeins að því hversu mikilvægt það er að fyrirtæki sem eru í atvinnurekstri og ekki síður þau sem eru ný í atvinnurekstri á Íslandi hafi metnað til að uppfylla ímynd landsins um hreinleika. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé innstæða fyrir slíkum yfirlýsingum og fyrir því sem fram kemur bæði í máli og framsetningu þeirra sem eru að hefja atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Af því tilefni langar mig líka að nefna, vegna orða frummælanda hér þegar hann spyr hversu alvarlega Íslendingar taki umhverfismálin og umhverfisþáttinn almennt, að við finnum fyrir því á tímum sem þessum að það er tilhneiging til að menn vilji láta hjá líða að taka umhverfisþættina alvarlega vegna þess að okkur liggi svo á í einhvers konar uppbyggingu. Þessi uppákoma fyrir norðan er gott dæmi um hið gagnstæða, þ.e. að uppbyggingu atvinnulífs þarf að fylgja vitund um mengun og þá hættu sem mengun fylgir. Ábyrgð atvinnufyrirtækjanna og framkvæmdaraðilanna er gríðarleg að því er þetta varðar en jafnframt má setja málið þannig fram að um er að ræða eiginlega þríhliða samkomulag milli framkvæmdaraðilans, eftirlitsaðilans eða leyfisveitanda og svo í þriðja lagi almennings vegna þess að almenningur þarf að treysta því að eftirlit og utanumhald sé nægilega skýrt til að heildarhagsmunir almennings og náttúru séu tryggðir.

Sú umræða sem hér er vakin upp kemur til af ábendingum innan úr fyrirtækinu og síðan ákveðinni eftirfylgd fjölmiðla sem ég held að við eigum að fagna, þ.e. því að ábyrgð og meðvitund almennings hefur sannarlega aukist að undanförnu. Af því tilefni nefni ég við Alþingi nýja heimasíðu Umhverfisstofnunar, ust.is, þar sem menn eiga að geta séð öll útgefin starfsleyfi. Þessi síða var opnuð á föstudaginn og þar eigum við að geta fylgst með framkvæmd, mælingum og eftirfylgni allra starfsleyfa ásamt öðrum fjölbreyttum þáttum í starfsemi þessarar stofnunar.

Tilhögun mengunareftirlitsins er auðvitað þríþætt í meginatriðum og felur í sér yfirferð, mælingu og losun efna eða virkni mengunarvarnabúnaðar. Í öðru lagi eru heimsóknir í starfsstöðvarnar þar sem farið er yfir niðurstöður og svo í þriðja lagi er móttaka ábendinga og kvartana sem kann að koma að öðru frumkvæði.

Nokkuð hefur verið fjallað um annars vegar lagaumhverfið og hins vegar hvernig Umhverfisstofnun útfærir eftirlitsskyldu sína og þar hefur sérstaklega verið fjallað um það að Umhverfisstofnun hafi hug á því að fara meira í óundirbúið eftirlit en verið hefur. Má þá velta því upp hvort það sé að gefnu tilefni, hvort það sé vegna þess að komið hafi upp sífellt fleiri tilvik sem gefi ástæðu til að ætla að það skipti máli að Umhverfisstofnun sinni eftirliti sínu án þess að gefa fyrirtækjum upp fyrir fram klukkan hvað og á hvaða degi slíkt eftirlit muni fara fram.

Vegna þess að málshefjandi spurði sérstaklega um viðbrögð mín við þessu hafa þau verið með ýmsum hætti, en sérstaklega vil ég geta þess að í morgun skrifaði ég forstjóra Umhverfisstofnunar bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig einstök fyrirtæki hafi uppfyllt starfsleyfisskilyrði í gildandi starfsleyfum, þ.e. öllum gildandi starfsleyfum sem Umhverfisstofnun hefur gefið út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og hvort og þá í hvaða tilvikum hafi verið um að ræða frávik frá settum skilyrðum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem hér erum, fyrir eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, að vera upplýst um það með hvaða hætti gengið er um þessi starfsleyfi og hvort það sé (Forseti hringir.) daglegt brauð að gefin sé undanþága frá þeim.