139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[15:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Fyrir nokkrum áratugum var ort á Akureyri:

Hver er þessa eina á,

sem aldrei frýs?

Gul og rauð og græn og blá

og gjörð af SÍS.

Síðan er liðinn langur tími og Glerá rennur tiltölulega glær til sjávar flesta daga. Enginn óskar sér þess að Gleráin verði aftur með þeim litarhætti sem þarna er lýst. Þvert á móti hafa verið sett ýmis ákvæði í lög og reglur sem miða að því að við vinnum og umgöngumst náttúruna með öðrum hætti en þarna var gert. Við höfum fengið ný verkefni, það koma ný tækifæri og nýjar áskoranir á öllum sviðum, jafnt í uppbyggingu atvinnulífs sem í viðfangsefnum þeirra sem vilja ganga skynsamlega og vel um náttúru landsins.

Ég leyfi mér að nefna við þetta tækifæri þau sjónarmið sem ég hef ítrekað kallað eftir. Ég held að ég hafi borið þetta upp við þrjá hæstv. umhverfisráðherra á liðnum árum sem lúta að því með hvaða hætti eftirliti með þessum þáttum er sinnt. Ég bar fram fyrirspurn við hæstv. umhverfisráðherra í febrúar á síðasta ári um framsal verkefna frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og þá var mér lofað því að vinna væri í gangi og að stefnumörkun varðandi þessa þætti yrði lokið í júní á síðasta ári. Ég er með mikinn fyrirvara á því með hvaða hætti við höfum komið að þessum þáttum. Ég tel að það sé enginn hörgull á reglum eða regluverki, heldur hef ég staldrað við þá hugsun að það sé einhver misbrestur (Forseti hringir.) á því hvernig við vinnum með það regluverk sem við höfum sett upp. Þess vegna kalla ég enn og aftur eftir svörum hæstv. ráðherra við því hvernig þessu (Forseti hringir.) verkefni líði.