139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[15:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ekki eru öll kurl til grafar komin í þessu Becromal-máli en sú niðurstaða sem maður getur dregið af því í bili er sú að eigandinn hafi ósköp einfaldlega ekki staðið sig, honum hafi fundist í lagi að sulla vítissóda út í sjálfan Eyjafjörð. Það er vafamál að svona eigendur eigi að fá að starfa hér á landi þannig að hann verður að gera svo vel og lofa bót og betrun og sýna í hverju hann ætlar að bæta þetta sjálfur.

Svo er það náttúrlega þannig, og þá ætla ég ekki að tala illa um Umhverfisstofnun, að í umhverfismálunum hafa áratugir afskiptaleysis, frjálshyggjuvitleysan og tal manna hér um að það sé eins og hver annar sovétkommúnismi að líta eftir í umhverfismálum (Gripið fram í.) alveg eins og það var í bankamálunum — af því að hv. þm. Pétur Blöndal kallar eitthvað fram í — skapað ákveðinn brag í þessum eftirlitsstofnunum okkar með þeim dæmum sem nú koma í ljós.

Þar sem þetta er ekki það fyrsta sem við mætum á þessum vetri vil ég segja að við í umhverfisnefnd höfum fjallað um svipuð mál, Funa-málið, og þar er von á því að á næsta eða þarnæsta fundi leggi hinn ágæti hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir fram drög að breytingartillögum á lögum sem við þurfum að fjalla um og í því ljósi ætlum við líka að skoða þetta.

Ég vil segja um nálægðarregluna sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ræðir um að ég tel að það þurfi að athuga hana. Auðvitað er hún góð í Evrópusambandinu og líka góð á Akureyri. Funa-málið gefur reyndar ekki tilefni til að álykta að það sé endilega ráðið þegar svo er í fjörðinn búið sem þessi saga ber vitni um. (Gripið fram í.)