139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það eru ekki mörg ár síðan ástand í atvinnumálum á Eyjafjarðarsvæðinu var mjög erfitt og þá ekki síst á Akureyri og íbúar þar fögnuðu því mjög þegar starfsemi Becromal hófst þar. Þar vinna um 100 manns í dag og þessi starfsemi er enn í uppbyggingu. Það er góða hliðin á þessu máli að atvinnuleysi hefur minnkað og umsvifin hafa aukist á þessu svæði. Sú framleiðsla sem þetta fyrirtæki skilar af sér er umhverfisvæn.

Þá erum við komin að því máli sem við höfum verið að ræða hér, en það er losun á ákveðnum efnum út í Eyjafjörð frá þessu fyrirtæki sem upp komst, að manni virðist, af innanhússfólki sem starfar í fyrirtækinu, eitthvað sem eftirlitsaðilar hafa alla vega ekki enn komist að raun um. Það segir okkur að eitthvað er að eftirlitinu sem slíku, ég held við getum ekkert lokað augunum fyrir því að um margra mánaða skeið hefur þetta viðgengist án þess að þeir aðilar sem eiga að hafa eftirlit með framleiðslunni hafi rekið augun í það.

Þá veltir maður því fyrir sér hvar best sé að hafa eftirlit með starfsemi sem þessari. Er réttara að fela til að mynda heilbrigðisnefndum og eftirliti á viðkomandi svæðum, í nærumhverfinu, að hafa eftirlit með starfsemi sem þessari? Það hefur verið mikið í umræðunni, sérstaklega vítt og breitt um landið, hjá fólki sem þekkir vel til, að þeim málum ætti að vera þannig fyrir komið að eftirlitið ætti að vera í nærsamfélaginu. Ég held að við þurfum að draga ákveðinn lærdóm af þessu.

Við skulum líka hafa í huga í þessari umræðu að það varð ekki neitt stórkostlegt umhverfisslys, við skulum þakka fyrir það. En það hefði getað orðið. Þannig að við þurfum að læra af þessari reynslu. Við þurfum að meta þessa hluti upp á nýtt. Við þurfum að standa vörð um náttúruna, það er engin spurning. Það þarf að herða eftirlit með starfsemi sem þessari í þágu umhverfismála.

Ég vil (Forseti hringir.) að lokum segja það að starfsemi þessa fyrirtækis er mjög mikilvæg fyrir Eyjafjarðarsvæðið, en það þarf að hafa (Forseti hringir.) mikið eftirlit með starfsemi af þessu tagi.