139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Kannski er nú bara hægt að snúa málinu þannig að vítissódi sé umhverfisvænn (Gripið fram í: Nei.) en það er ljóst að það er brotalöm á starfsháttum og verkferlum Umhverfisstofnunar og nauðsynlegt að þar verði tafarlaust úrbót á. Það væri gott að fá svör við því hvernig umhverfisráðuneytið ætlar að bregðast við þessum brotalömum. Kannski er nauðsynlegt að tryggja að eftirlitskerfi séu markvissari og betra samstarf milli aðila sem eiga að fylgjast með mengun frá fyrirtækjum sem stunda mengandi atvinnurekstur.

Ég tek undir það með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að nauðsynlegt sé að fara að fá svör við fyrirspurn hans sem var lögð fram fyrir ári.

Mér finnst lík alveg ótrúlegur hroki í blessuðum framkvæmdastjórum stóriðjunnar þegar þeir játa að þeir hafi lengi vitað að hreinsunarbúnaður verksmiðjunnar hafi ekki virkað sem skyldi á þeim tímum sem mikið álag er á honum og að þeir hafi verið meðvitaðir um að þeir væru að fara á svig við skilyrði um starfsleyfi. Það kannski kallar eftir því að við séum með skýrari og meira afgerandi og strangari reglur varðandi tímabundna sviptingu á starfsleyfum þegar forsvarsmenn svona fyrirtækja brjóta vísvitandi reglur sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfi okkar.

Ég vil jafnframt fagna því og það er mjög ánægjulegt að fleira fólk hefur þorað að standa upp og blása í flautuna og afhjúpa lögbrot í fyrirtækjum og í opinbera geiranum. Ég kalla eftir löggjöf sem verður til þess að fólk þori að láta vita af slíkum hlutum, eigi ekki á hættu á að missa vinnuna eða æruna. Ég vil minna á að í hinum svokallaða IMMA eru lagðar til leiðir til að tryggja betur vernd þeirra sem þora að blása í flautuna.