139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér stjórnsýslu Umhverfisstofnunar sem virðist ekki hafa verið með eftirlit með því sem hún átti að hafa eftirlit með. Eitt af því sem kom mér spánskt fyrir sjónir var að Umhverfisstofnun gerir boð á undan sér þegar hún fer í eftirlitið til þess að láta fyrirtækin vita svo að þau geti tekið til áður en þeir koma. Það er spurning hvort það sé ekki misbrestur á eftirlitinu þegar svo er.

Ég vil rifja upp að í annað sinn á stuttum tíma virðist Umhverfisstofnun hafa algerlega brugðist hlutverki sínu. Díoxín, eitthvert mesta eitur sem til er, spúðist yfir Engidal, Kirkjubæjarklaustur og Öræfi, á miðju landbúnaðarsvæði í öllum þremur tilvikum. Og á Klaustri var strompurinn áfastur grunnskólanum og sundlauginni. Talandi um næreftirlit; sveitarstjóranum í Skaftárhreppi finnst það bara allt í lagi. Það er ekki endilega lausnin á þessu máli að hafa næreftirlit. Lausnin á þessu máli er kannski í fyrsta lagi að hafa eitthvert eftirlit. Það væri kannski ágætt að byrja þar.

Ég hef sjálfur ítrekað haft samband við Umhverfisstofnun vegna annarrar tegundar af mengun, fyrst fyrir um þremur árum. Það hefur ekkert gerst í þeim geira á þessum tíma, og þó hef ég ítrekað haft samband við þá. Þar hefur aldrei leikið vafi á heimildum Umhverfisstofnunar og umboðsmaður Alþingis hefur meira að segja úrskurðað sérstaklega í þá veru að Umhverfisstofnun geti og eigi að bregðast við í slíkum tilvikum, en ekkert hefur gerst.

Hæstv. ráðherra verður einfaldlega að bretta upp ermarnar og taka til í þessari stofnun. Hún starfar enn þá undir draugum hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem var á þá vegu að allt eftirlit væri óþarft — menn töluðu hér árum saman af fyrirlitningu um eitthvað sem þeir kölluðu eftirlitsiðnaðinn. Þessi iðnaður er einfaldlega, af því hann er ekki undir eftirliti, að spúa eitri út í umhverfið. Stofnunum var lokað. Eftirlitið var gelt. Þjóðhagsstofnun var lokað. Fjármálaeftirlitið var ónýtt. Samkeppniseftirlitið var hálfónýtt o.fl. Þetta eru leifar (Forseti hringir.) af hugmyndafræði sem við eigum að vera búin að henda og er ekki seinna vænna að henda strax í næstu viku.