139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum.

500. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hv. þingmanni fyrir athugasemd hans. Ég geri mér fulla grein fyrir að hér erum við með viðkvæmt mál en að mörgu leyti hefur úthlutun hreindýraleyfa verið með miklum ágætum. Margar aðferðir hafa verið notaðar á þeim tæplega 30 árum sem ég hef búið á Austurlandi og sumar verið teknar upp oftar en einu sinni og ég held að í ljósi þess — nú vil ég taka fram að í fyrirspurn minni voru erlendir ferðamenn aldrei nefndir, ég var alveg eins að tala um Íslendinga og erlenda ferðamenn. Mér finnst að við megum ekki einblína bara á útlendinga en eftir sem áður held ég að við verðum að horfast í augu við það að það sé alveg möguleiki á að við náum því að taka hagsmuni ferðaþjónustuaðila, hagsmuni heimamanna og hagsmuni þeirra sem hafa áhuga á að veiða á Íslandi, hvort sem það eru Íslendingar eða erlendir ferðamenn, og skoða þá hagsmuni í heild sinni. Við megum ekki rígbinda okkur við það að sú aðferð sem nú er í gangi sé sú eina rétta vegna þess að þannig var það þegar þetta var endurskoðað síðast, þá voru menn alveg vissir um að þeir væru með hina einu réttu aðferðafræði sem gekk út á það að enginn fékk að veiða nema bara Austfirðingar.

Ég held að við eigum að skoða hvort einhver möguleiki er á því að tryggja þessa atvinnugrein sem er orðin talsverð á Austurlandi. Við megum ekki slá hugmyndina út af borðinu. En eins og kom fram í máli mínu geri ég mér grein fyrir að þarna eru ákveðin jafnræðissjónarmið sem þarf að taka tillit til en minni jafnframt á að það eru mörg sjónarmið og þetta kerfi er örugglega ekki það fullkomnasta. Og ég fagna því mjög að komin sé af stað hugmynd um að endurmeta þetta kerfi því að ég held að við þurfum að gera það stöðugt.