139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

úthlutun veiðileyfa til ferðaþjónustuaðila á hreindýraveiðisvæðum.

500. mál
[16:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég held að í þessari umræðu kristallist algjörlega kjarni málsins sem er að þarna er um auðlind að ræða og þetta snýst um jafnræðissjónarmið en um leið eru þau sjónarmið líka mjög sterk sem lúta að fullvinnslu auðlindar heima í héraði. Ég hef sjálf séð ýmislegt eftir fólk fyrir austan sem hefur unnið úr hornum og skinnum og þannig vill maður helst sjá það og að arðurinn af hreindýraveiðunum skili sér mest heim í hérað frekar en það skili sér allt saman suður og að sú handverksþekking og fleira sem getur orðið til í kringum veiðarnar fái að skjóta rótum og þróast þar sem auðlindin á heima.

Við höfum rætt líka um fjölbreytta uppbyggingarmöguleika á ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu á þessu svæði og návígið við auðlindina er þar náttúrlega mjög mikilvægt.

Ég tek undir það sem kom fram í athugasemd frá hv. þm. Þór Saari varðandi þau prinsipp sem eru hér undir líka, jafnræðið og hættuna á því að þetta verði einhvers konar lúxusmarkaður fyrir þá sem hafa á því efni, þetta höfum við allt saman í huga. En enn og aftur árétta ég að vinnan stendur yfir. Ég hyggst halda þessum sjónarmiðum öllum til haga við þá endurskoðun.