139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það kann að hljóma ankannalega að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um viðhorf hennar til álversframkvæmda í Helguvík þar sem hún hefur ekki verið yfirlýstur stuðningsmaður þeirra ágætu framkvæmda og við verið mjög ósammála þar. En tilefni þessarar fyrirspurnar minnar, sem er orðin rúmlega mánaðargömul, er frétt sem ég las á visir.is 20. febrúar með yfirskriftinni „Svandís leggst gegn álveri í Helguvík“. Það veldur mér óneitanlega áhyggjum vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra hefur sýnt það og sannað með störfum sínum að hún getur haft áhrif þar sem hún vill og beitir ýmsum brögðum til að stöðva mál sem henni eru ekki þóknanleg.

Fyrir um það bil tveimur árum var samþykktur hér á Alþingi fjárfestingarsamningur við Norðurál og Vinstri grænir voru ekki samþykkir því. Það breytir ekki því að ríkisstjórn sú sem nú situr er skuldbundin til að fara eftir þeim samningi og þeirri samþykkt Alþingis. Með honum skyldi formlegum hindrunum ríkisins við byggingu álvers rutt úr vegi. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki verið einhuga og yfirlýsingar sumra ráðherra um þetta verkefni hafa verið á þann veg að það er eins og þeir hafi ekki vitað að með því að undirrita fjárfestingarsamninginn var gengist undir það að gera ekkert sem hindrað getur framgang verkefnisins. Þegar hér segir að Svandís leggist gegn álveri í Helguvík þá vildi ég gjarnan fá að vita, það var tilefni fyrirspurnar minnar, hvort hæstv. ráðherra muni gera eitthvað til að stoppa það og koma í veg fyrir þá framkvæmd.

Einnig er sagt í þessari sömu frétt að hægt sé að fara út í bæði umhverfisvænni og arðbærari verkefni fyrir atvinnulífið á Reykjanesi og sérstaklega er tekið til að hæstv. umhverfisráðherra sé á því að skoða megi aðrar leiðir til að auka atvinnu á Reykjanesi og nefnir dæmi um eldfjallaþjóðgarð. Þá langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að það muni skapa jafnarðbær störf og álverið í Helguvík mundi gera, þar sem 8–10 þúsund ársverk yrðu á framkvæmdatímanum og 2 þúsund störf til frambúðar eftir að framkvæmdum lyki. Það þyrfti ansi marga ferðamenn til og þeir þyrftu að koma með ansi mörgum flugvélum sem byggðar eru úr áli og losa fullt af koltvísýringi út í loftið eins og við vorum að ræða um daginn. Allt þarf þetta fólk að keyra um á vegum, það þarf göngustíga, sjoppur, salerni, sorptunnur, bensínstöðvar og bílastæði fyrir allt þetta fólk og ég veit ekki hvort áhrifin á umhverfið á Reykjanesi yrðu eitthvað minni en ef borað yrði fyrir orku á umhverfisvænan hátt.

Það er þess vegna, frú forseti, sem ég legg þessa fyrirspurn fram til hæstv. umhverfisráðherra.