139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrirspurnina; hún orðaði það sjálf þannig að hún kynni að virðast ankannaleg. Ég ætla ekki að gera þau orð að mínum neitt sérstaklega en þegar við erum að ræða þessi mál og kannski almennt þegar verið er að ræða atvinnutækifæri og uppbyggingarmöguleika er mikilvægt að hafa heildarsýnina í huga. Hún er auðvitað mikilvægust þegar um er að ræða stóriðjuframkvæmdir sem eru miklar að umfangi.

Kannski er þá einfaldast að tala um fyrirhyggju, um áætlanagerð eða framsýni en það er líka hægt að tala um hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sú hugmyndafræði gerir kröfur um að alltaf sé hugað að heildarmyndinni, félagslegri, efnahagslegri og umhverfislegri og til langs tíma.

Þessi sýn snýst kannski í meginatriðum um það að leggja skynsamlegan grunn að öllum áformum. Því miður er það einmitt það sem hefur skort í þessu tiltekna verkefni að því hefur ekki verið að heilsa að um skynsamlegan grunn sé að ræða. Athugum að hér er um að ræða áætlun sem er algert einsdæmi að umfangi, fullbyggt álver miðað við 360 þúsund tonna framleiðslu en fyrir það þarf 625 megavött af orku. Það er mikil orka, virðulegur forseti, það eru sjö Hverahlíðarvirkjanir sem dæmi, það eru sjö stórar jarðhitavirkjanir, bara til að halda þessu samhengi til haga. Og svo var lagt af stað án þessarar heildarsýnar. Aðferðin var einfaldlega sú að hefjast handa, skapa þrýsting með því að byrja áður en áætlunin lá fyrir. Það er vont verklag, sama hvort um er að ræða framkvæmdir við bílskúr, sumarbústað, álver eða hvað það er, að leggja af stað, vegna þess að það skapar væntingar, það skapar vonir og það skapar framtíðarsýn sem er kannski ekki innstæða fyrir.

Ábyrgð þeirra sem hafa uppi slíkan málflutning er mjög mikil. Jarðhitinn er þeirrar gerðar að það tekur langan tíma að þróa nýtingu hans og út af fyrir sig má efast stórlega um það hvort skynsamlegt sé að byggja eitt risaverkefni á þessari tegund af orku. Orkustofnun beinir til að mynda sjónum sínum að þessum þáttum, þ.e. sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar, varðandi leyfisveitingarferlið í kringum Reykjanesvirkjun og stækkun hennar.

Hér hef ég aðeins fjallað um magn orkunnar, eðli auðlindarinnar og þær spurningar sem lúta að orkuöflunarþættinum. Við gætum til viðbótar rætt stöðu þeirra orkufyrirtækja sem um ræðir í fjárfestingarsamningnum, þ.e. HS Orku í sínum samskiptum þá fyrst og fremst vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar, og þá staðreynd að engir samningar hafa verið gerðir varðandi Krýsuvík, Eldvörp eða önnur áform, en ekki síður stöðu Orkuveitu Reykjavíkur, samanber nýjustu fréttir í morgun.

Það er svo, virðulegi forseti, að raunveruleikinn blasir við. Raunveruleikinn er ekki til hægri og raunveruleikinn er ekki heldur til vinstri. Raunveruleikinn er einfaldlega eitthvað sem okkur ber að hafa með í för, ekki síst þegar hugað er að jafnstórum áætlunum og hér er um að ræða og ekki síst þegar um er að ræða áætlanir sem ætlað er að vekja von í brjósti fólks.