139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um Helguvík og álverið minnir mig stundum á kvæðið „Ekki benda á mig“. Mér finnst hæstv. ráðherra vera að forðast það í þessari umræðu að bent sé á hana í þessu máli, heldur sé öllum öðrum um að kenna, sveitarfélögum, skipulagsyfirvöldum, fjármögnunaraðilum o.s.frv. En þá vaknar bara þessi einfalda spurning: Hver er afstaða ráðherrans til málsins? Við vitum að það er handan hennar áhrifasvæðis, skulum við segja, að sjá um fjármögnunarþáttinn og ýmislegt annað. En það eru hins vegar önnur atriði sem snúa beint að ráðherranum í þessu máli og ég held að það sé mjög mikilvægt, áður en þessari umræðu lýkur, að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hver afstaða hennar er til þess að álver rísi í Helguvík og hver afstaða hennar er til þess að hluti af þeirri orkuöflun sem þarf til þessarar starfsemi komi frá jarðhitasvæðunum á Reykjanesi.