139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:55]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og þar fremst í flokki hv. formaður þingflokksins, legðist sérstaklega gegn ferðaþjónustuuppbyggingu á svæðinu af ótta við umhverfisáhrif, en það er ágætt. Bæði hv. málshefjandi og jafnframt hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafa nefnt hvaða verkefni eru á mínu borði, það var svo smekklega orðað hjá málshefjanda að sú sem hér stendur beitti ýmsum brögðum til að stoppa mál. En þannig er nú mál með vexti að allt skipulag sem varðar álverið í Helguvík, sama hvort það er skipulag varðandi Suðvesturlínur eða aðrar framkvæmdir á svæðinu, hefur verið staðfest, allt skipulag hefur verið staðfest. Það er því enginn fótur fyrir spurningunni hvað þetta varðar.

Síðan er spurt: Er það svo að ráðherrann setji sig á móti uppbyggingu álvers í Helguvík? Þingmenn Vinstri grænna hafa verið andsnúnir þeim áformum alla tíð og hafa greitt atkvæði gegn þeim. Mér finnst það vera svo, og það er sífellt að verða skýrara og skýrara og blasa betur við, að uppleggið var óskynsamlegt vegna þess að heildarhugsunin var ekki höfð með í för þegar lagt var upp. Og það er óskynsamlegt að leggja upp með þeim hætti. Það snýst ekki um heitar kartöflur nema þær sem nú er verið að henda á milli þingflokks Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjórans í Reykjanesbæ. Vandinn er í raun og veru á herðum þeirra sem leggja upp í áætlun sem stenst ekki og hefur aldrei staðist.