139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

skuldamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

619. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp. Það er gríðarlega brýnt, til að hefja endurreisn í landinu og auka atvinnusköpun, að greitt verði úr skuldamálum fyrirtækja, ekki bara þeirra stóru heldur líka þeirra meðalstóru og þeirra smáu. Það er í sjálfu sér óviðunandi að enn, tveimur og hálfu ári eftir hrun, sé svo miklu verki ólokið í því efni. Um leið er full ástæða til að þakka og hrósa hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem kom að þessu á haustdögum hversu greitt hann hefur gengið í málið, sett upp Beinu brautina og fengið alla aðila til samstarfs um að endurskipuleggja skuldir smárra og meðalstórra fyrirtækja.

Ég vildi nota tækifærið og inna ráðherrann eftir því hvort hann telji að áætlanir um lok þess leiðangurs muni ganga eftir í ljósi reynslunnar hingað til.