139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

skuldamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

619. mál
[17:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Mikilvægt er að meta hvort það kunni að vera að einhver fyrirtæki sem ekki fá úrlausn, ættu að fá hana. Ég held að það sé ljóst að innan þessara stærðarmarka sé ekki um slíkt að ræða nema að fyrirtækin búi ekki við raunverulegar rekstrarforsendur. Við sjáum ákveðna aukningu síðustu mánuði í árangurslausum fjárnámum hjá fyrirtækjum. Kannski er það til vitnis um að menn séu að ljúka rekstri sem hafði ekki raunverulegar rekstrarforsendur. Grundvallaratriðið í Beinu brautinni er að fyrirtækin eigi sér heilbrigðar rekstrarforsendur, jákvætt sjóðstreymi og hafi forsendur til að byggja sig upp að nýju. Það er engum til góðs að halda áfram einhvers konar lánafyrirgreiðslu við fyrirtæki sem geta ekki á heilbrigðum forsendum staðið undir sér til lengri tíma litið því þau munu aldrei geta bætt við sig fólki.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að undirstrika að ásetningur okkar er að tryggja að þau fyrirtæki sem hafa heilbrigt sjóðstreymi og eðlilegar rekstrarforsendur fái úrlausn óháð stærð, hvort sem þau falla núna undir 10 milljóna mörkin eða fara yfir 1.000 milljóna mörkin. Sömu viðmið gildi alltaf þar um.

Ég vil líka fagna þeim jákvæða tón sem hefur verið í umræðunni og skilningnum á mikilvægi þessa verkefnis. Í tilefni orða hv. þm. Helga Hjörvars vil ég upplýsa að ætlun okkar er að endatakmarkið náist, þ.e. að öll fyrirtækin fái tilboð fyrir júní þó að úrvinnslan geti tekið einhvern lengri tíma og að við ljúkum kannski ekki málum með skjalagerð fyrr en lengra er liðið á árið.

Aðalatriðið er að í kjölfar þessa eru bankarnir byrjaðir að hreyfa sig (Forseti hringir.) í meðferð skuldamálanna. Þeir eru líka byrjaðir að hreyfa sig betur en þeir gerðu í málefnum skulda heimilanna og það er mjög mikilvægt til að við komum efnahagslífinu (Forseti hringir.) af stað að heimili og fyrirtæki geti um frjálst höfuð strokið og gert áætlanir á ný og haft heilbrigðar rekstrarforsendur.