139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mannauðsstefna.

514. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir svörin. Við erum mjög sammála þegar kemur að þessu máli vegna þess að ég held að hér séum við að ræða um mjög mikilvægt mál.

Eins ég nefndi áðan er hið opinbera, þ.e. ríkið, einn stærsti atvinnurekandi hér á landi. Það er mjög brýnt að sá vinnuveitandi hafi stefnu, mannauðsstefnu sem fylgt er eftir með markvissum hætti. En eins og ég nefndi gerir Ríkisendurskoðun mjög alvarlegar athugasemdir við það að smærri einingar hjá hinu opinbera, smærri stofnanir, hafa ekki innleitt mannauðsstefnu með nægilega skilvirkum hætti. Þar þurfum við að taka á. Hvort hægt er að gera það með samræmdum hætti að nokkrar stofnanir taki sig til og haldi utan um málaflokkinn í sameiningu, um það skal ég ekki segja, en það er mjög mikilvægt að þetta fari fram.

Við erum ekki bara að tala um launin og hvað viðkomandi fær í sitt veski vegna vinnuframlags síns. Við erum líka að tala almennt um starfsumhverfið og þá ánægju sem fylgir því að sinna sínu starfi dags daglega. Þegar ljóst er orðið að hátt í helmingur eða helmingur forstöðumanna tekur ekki viðtöl við sitt starfsfólk, þ.e. yfirmaður tekur ekki viðtal við sinn undirmann, verðum við að breyta þeirri staðreynd.

Ég er viss um að enda þótt það kosti einhverja fjármuni að innleiða mannauðsstefnu hjá hinu opinbera verður útkoman úr því ánægðara starfsfólk sem verður í framhaldinu hæfara til að sinna starfi sínu, getur jafnvel gert fleiri hluti en áður. Ég tel að hér sé um að ræða mál sem hæstv. fjármálaráðherra þurfi að beita sér fyrir að komist í gott og viðunandi horf eins fljótt og hægt er og ég heyrði ekki betur (Forseti hringir.) á svari hans áðan en að hann ætli að beita sér með kröftugum hætti að innleiðingu þessarar stefnu.