139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mannauðsstefna.

514. mál
[17:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hef ég svo sannarlega fullan hug á að gera og vildi gjarnan geta lagt meira til þess. Ef við hefðum fjármuni og mannafla til að leggja meiri áherslu á þennan málaflokk væri það sannarlega æskilegt og við munum reyna að gera það eins og frekast er kostur. Það er auðvitað augljóst mál að það skiptir hið opinbera gríðarlega miklu máli að það geti birst og verið í reynd eftirsóttur og góður vinnuveitandi. Það leiðir af sjálfu að það vilja auðvitað allir vera og eiga kost á því að ráða hæft starfsfólk og hafa það ánægt í starfi, en það er ekki síður vegna þess að hið opinbera annast í mjög miklum mæli mjög vandasama og viðkvæma þjónustu sem miklu máli skiptir að sé vel af hendi leyst.

Það er augljóst að það er fleira en launin ein sem hér skipta máli, það er allt vinnuumhverfið. Ríkið þarf að geta kynnt sig sem eftirsóknarverðan, fjölbreyttan og lifandi vinnustað. Það þarf að vera nægjanleg tilbreyting og sveigjanleiki í störfum til að gera þetta ekki of hversdagsbundið og vanabundið. Þetta skiptir máli t.d. þegar ríkið, eins og aðrir vinnuveitendur, er að kynna sig sem slíkt á framadögum innan háskólanna eða framhaldsskólanna. Ég held að ríkið hefði að ósekju fyrr mátt fara að leggja meiri áherslu á slík mál, þ.e. að koma því betur á framfæri að það vill vera góður og eftirsóttur vinnuveitandi.

Ég fullyrði að forstöðumenn almennt eru allir af vilja gerðir til að leysa þessi mál vel. Svo mikið er víst að félag forstöðumanna hefur á þessum sviðum eins og svo mörgum fleirum lýst miklum vilja til að taka á með stjórnvöldum í þessum málum og ég held að öllum góðum stjórnendum sé ljóst mikilvægi þess að sinna þessu.

Það er verið að reyna að setja þetta upp með skýrum hætti og það sem ég fór hér yfir í texta er til í prýðilega skemmtilegu skipuriti sem nær dálítið vel utan um hvað er undir þegar við erum að tala um mannauðsmálin. Þetta þarf að kynna og samkvæmt þessu þarf að vinna. Því er ég algjörlega sammála.