139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við lesum í blöðum dagsins að ráðleysi ríkisstjórnarinnar sé algert. Það er ekki stjórnarandstaðan sem segir þetta heldur aðilar vinnumarkaðarins. Þeir segja að ráðleysi ríkisstjórnarinnar sé slíkt að ekki sé hægt að klára samninga. Þetta kemur okkur í stjórnarandstöðunni svo sem ekki á óvart. Við vitum hvernig staðan er í sambandi við atvinnumál innan ríkisstjórnarflokkanna. Þar er ósamstaðan og óvissan alger. Menn koma sér ekki saman um eitt eða neitt á þeim vígstöðvum. Við heyrum hæstv. forsætisráðherra segja eitt varðandi skattana á meðan hæstv. fjármálaráðherra hleður skattaskammbyssuna enn og aftur og boðar nýja og hærri skatta. Þannig er hvert málið á fætur öðru.

Nú horfum við fram á að við náum ekki kjarasamningum, m.a. út af því að skilaboð ríkisstjórnarinnar eru mjög óskýr. Framkvæmdapakkinn er mjög rýr í roðinu, segir formaður Samtaka atvinnulífsins, Vilmundur Jósefsson, sem sagði að enn og aftur væri ríkisstjórnin að japla á hlutum sem ekki væri hægt að láta ganga upp.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, sem hefur haft stór orð varðandi uppbyggingu atvinnumála og hefur sýnt ákveðið sjálfstæði ásamt örfáum þingmönnum Samfylkingarinnar í þá veru að vilja byggja upp blómlegt atvinnulíf og leiða ríkisstjórnina á réttar brautir: Hver eru skilaboð hans til ríkisstjórnarinnar til að leysa þetta mál, höggva á hnútinn þannig að við getum komið kjarasamningum frá svo að a.m.k. einni óvissunni verði eytt? Hver eru hans skilaboð til ríkisstjórnarinnar? Hver eru hans skilaboð til atvinnulífsins á þessum erfiðu tímum?