139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa Íslendingar upplifað tvíburakreppu, annars vegar bankakreppu og hins vegar krónukreppu. Bankakreppan var að mestu leyti á kostnað erlendra kröfuhafa, þúsundir milljarða króna en hitti ríkið illa í gegnum endurfjármögnun bankanna og Seðlabanka. Krónukreppan olli miklu meira tjóni hjá fyrirtækjum og heimilum í landinu. Hrun krónunnar rústaði efnahagsreikningum fyrirtækjanna sem misstu allt sitt eigið fé og launafólk og heimili urðu fyrir miklu áfalli við hrun krónunnar en líklega meira við verðbólguskot sem fylgdi í kjölfarið.

Hvað er Seðlabankinn að segja með áætlun sinni um afnám hafta? Hann er að segja að krónuvandinn sé slíkur að við ætlum að reyna að losa snjóhengjuna, jöklabréfin, upp á tæplega 500 milljarða kr. á næstu 2–3 árum. (Gripið fram í.) En við treystum okkur ekki til að losa almennu höftin á krónunni fyrr en þjóðin hefur tekið afstöðu til þess hvort hún treysti sér og vilji ganga í Evrópusambandið. Það er það sem Seðlabankinn er að segja og þeirri spurningu þurfa fleiri en samfylkingarmenn að svara. Hvaða framtíðarsýn ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða heimilum og fyrirtækjum í landinu upp á? Krónu í höftum eða nýja mynt? (Gripið fram í.) Það er veruleikinn sem Seðlabankinn birtir landsmönnum. Því miður er hægt að skjóta sendiboðann, það er hægt að skjóta hann. Því miður eru skilaboðin skýr. Við það þurfa stjórnmálamenn að horfast í augu. Við getum ekki losað höft á krónunni fyrir fyrirtækin eða heimilin í landinu. Við munum ekki búa við krónu nema í höftum. Hvernig ætla menn að komast fram hjá EES-samningnum við slíkt fyrirkomulag? (Gripið fram í.) Ég spyr sjálfstæðismenn: Hvernig ætla menn að komast fram hjá því að brjóta EES-samninginn með því að búa við krónu í höftum? Menn þurfa að horfast í augu við að hér þarf að taka upp nýja mynt (Gripið fram í.) fyrir heimilin og (Gripið fram í.) fyrirtækin. Þetta eru greinilega skilaboð sem fara frekar illa í suma þingmenn en við verðum að horfast í augu við veruleikann (Gripið fram í.) sem Seðlabankinn birtir okkur landsmönnum. Við búum ekki við krónu án hafta til framtíðar. Við þurfum að taka upp nýja mynt (Forseti hringir.) í landinu. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)