139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þjóðin gengur að kjörborði eftir nokkra daga og tekur afstöðu til Icesave-samningsins. Seðlabanki Íslands hefur lagt á það mat að nei í þjóðaratkvæði um Icesave þýði veikara gengi, lægri kaupmátt og meiri verðbólgu. Fyrir liggur að afleiðingar á lánshæfi, aðgengi að fjármálamörkuðum og vaxtakjör gætu orðið alvarlegar fyrir Íslendinga en Ísland gæti staðið uppi með dóm um greiðsluskyldu án fyrirliggjandi samnings um vexti, endurgreiðslur eða önnur kjör en ljóst er að sambærilegir eða lægri vextir verða vart í boði.

Með þverpólitískri samninganefnd tókst að lágmarka og festa niður eins og kostur er alla helstu kostnaðar- og áhættuþætti málsins. Vextir eru í lágmarki, höfuðstóll miðast aðeins við lágmarkstryggingu, engin ríkisábyrgð kemur til fyrr en þrotabú Landsbankans hefur gengið upp í skuldbindingar Tryggingarsjóðs, efnahagslegir og lagalegir fyrirvarar vegna stóráfalla eru til staðar og greiðslutími bæði vaxta og uppgjörs miðaður við þarfir og getu Íslands. Fari málið fyrir dómstóla eru allir þessir þættir úr höndum okkar Íslendinga svo að óvissan um endanlegan kostnað og kjör er margfalt meiri.

Virðulegi forseti. Íslendingar eiga að meta eigin hagsmuni og taka þá ákvörðun sem skynsamlegust er fyrir hagsmuni efnahags- og atvinnulífs til skemmri tíma og lengri. Við þær aðstæður þarf að vega og meta kostnað og áhættu af fyrirliggjandi samningi á móti áhættu og mögulegum kostnaði við áframhaldandi átök og dómsmál.

Í ljósi alls þessa er ekki tilviljun að aukinn meiri hluti þingmanna, þar á meðal hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, og allir þeir sérfræðingar sem unnu sleitulaust að lausn málsins á þverpólitískum grunni, mæla eindregið með samningi frekar en dómstólaleið.