139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þessa greiningu þingmannsins. Það er algjörlega ljóst að þær kosningar sem við erum að fara út í 9. apríl nk. snúast ekki annaðhvort um það að við borgum það sem þarf að borga, ef eitthvað þarf að borga, eða að við sleppum algjörlega undan þessu dæmi.

Þannig er mál með vexti að þessi skuldbinding, sem hljóðar upp á tæpa 700 milljarða, 670–680 milljarða (Gripið fram í: Krafa.) — krafa, hárrétt hv. þingmaður, það er talið að þrotabú Landsbankans muni borga 40% af þessari kröfu á þessu ári, 13% á næsta ári o.s.frv. Nú þegar eru til um 3/4 af því sem á að borga á þessu ári í beinhörðum peningum og það koma inn peningar á hverjum degi, getum við sagt. Talað hefur verið um áhættuna af því að takast á hendur ábyrgð á því sem eftir verður þegar þrotabúið hefur verið gert upp, en ég tel að hún sé af þeirri stærðargráðu að hún sé vel ásættanleg. Ef maður vegur saman ábatann af því að losna við þetta ógeðsmál út úr heiminum og kostnaðinn og áhættuna við að taka þetta á sig þá tel ég að ábatinn af því að segja já sé meiri. Ég hef því verið mjög eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að samþykkja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verður 9. apríl. Ég mun leggja mín lóð á vogarskálarnar til að svo verði.