139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

NATO, Líbía og afstaða VG -- kjarasamningar -- gjaldeyrishöft o.fl.

[14:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við heyrðum áðan mikla lofræðu milli tveggja hv. þingmanna um mikilvægi þess að samþykkja Icesave-samkomulagið. Það var ágætt að hlusta á þá hv. þingmenn fjalla um þetta þó að ég sé þeim að sjálfsögðu algerlega ósammála, enda eru þeir að mínu viti á miklum villigötum.

Ég vil hvetja hv. þingmenn sem telja að greiða eigi þessar skuldir þegjandi og hljóðalaust, sem mér sýnist að þessir hv. þingmenn vilji gera, að velta því fyrir sér hvernig eigi að mæta því sem fellur á þessu ári þegar kemur að því að semja næstu fjárlög. Á að hækka skatta eða á að skera meira niður til að mæta þeim 26–30 milljörðum sem munu þá verða til þess að íþyngja þjóðinni og okkur sem eru að leita í heilbrigðisþjónustu og annað? Hvernig ætla þessir ágætu þingmenn að greiða þetta?

Ég var að lesa skýrslu Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta og þar stendur í kaflanum Endurmat á skilyrðum fyrir losun gjaldeyrishafta í Viðauka I að lánshæfismatið muni batna ef Icesave-deilan verði leyst. Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Þó verður að hafa í huga að tilvist gjaldeyrishaftanna kann í sjálfri sér að vera hindrun í vegi þess að lánshæfismatið komist í fyrra horf. Því er ekki ástæða til að bíða með að hefja losun haftanna þar til lánshæfismat kemst í fyrra horf, þótt mikilvægt sé að ná lánshæfismatinu tryggilega upp í fjárfestingarflokk“ o.s.frv.

Þessi skýrsla Seðlabankans er nefnilega full af mótsögnum. Það er einfaldlega þannig. Bankinn segir bæði að það sé mikilvægt að samþykkja Icesave út af gjaldeyrishöftunum en segir svo að í sjálfu sér sé yfirlýsing hans um að ætla að halda áfram gjaldeyrishöftunum í fimm ár nægileg ástæða til þess að lánshæfismatið lækki eða í það minnsta hækki ekki. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Það er með ólíkindum að horfa upp á eina helstu stofnun landsins setja málið fram með slíkum hætti.