139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

630. mál
[14:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995. Frumvarpið er í tveimur lagagreinum. Annars vegar um gildistöku laganna sem yrði við samþykkt þeirra, og 1. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði mæli veigamikil rök með því.“

Tilefni frumvarps þessa er bréf umboðsmanns Alþingis þar sem athygli ráðuneytis míns var vakin á því að lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, eins og þeim var breytt með lögum nr. 118/1999, geri greinarmun á réttindum þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni vegna brota sem framin voru 1. janúar 1993 til 30 júní 1996 og þeirra sem verða fyrir tjóni sem leiðir af broti sem framið er 1. júlí 1996 eða síðar.

Lögin gilda um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar. Í bráðabirgðaákvæði við lögin er þó kveðið á um það að umsókn um bætur vegna tjóns sem leiðir af broti sem framið hefur verið fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku laganna en að öðru leyti er fjallað um skilyrði bótagreiðslna í 6. gr. laganna.

Með lögum nr. 118/1999 var 6. gr. laganna breytt á þann hátt að við bættist ný málsgrein þar sem kveðið var á um að heimilt væri að víkja frá skilyrðum ákvæðisins um að brot sem tjón væri rakið til hefði án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hefði gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns sem og því skilyrði að umsókn um bætur skyldi hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið ef veigamikil rök mæltu með því. Þau rök bjuggu að baki breytingunni að við tilteknar aðstæður gæti verið rétt að víkja frá framangreindum skilyrðum, sérstaklega ef brotið væri gegn barni. Að sama skapi gætu komið upp önnur tilvik þar sem rétt þætti að víkja frá skilyrðunum og var því tekið fram að undanþágan væri ekki einskorðuð við tilvik þar sem börn væru þolendur. Sams konar breyting var hins vegar ekki gerð á bráðabirgðaákvæði laganna en í því felst að lögin veita ekki heimild til að taka tillit til sérstakra aðstæðna í málum vegna brota sem framin hafa verið á tímabilinu 1. janúar 1993 til 30. júní 1996, jafnvel þótt í hlut eigi einstaklingar sem voru börn að aldri 1. júní 1997 eða af öðrum ástæðum höfðu ekki tök á því að leggja fram umsókn um bætur fyrir þann tíma.

Ákvæði núgildandi laga leiða því til þess að ekki er fullt jafnræði milli réttinda einstaklinga til greiðslu bóta samkvæmt lögunum jafnvel þótt óumdeilt sé að brot það sem framið hefur verið falli undir gildissvið þeirra. Þar sem ekki verður annað séð en að þau sjónarmið sem bjuggu að baki þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum árið 1999 gildi jafnframt um mál einstaklinga sem brotið hefur verið gegn á tímabilinu 1. janúar 1993 til 30. júní 1996. Er því lagt til í frumvarpinu að bráðabirgðaákvæði laganna verði breytt þannig að heimilt verði að víkja frá skilyrði þess um að umsókn um bætur vegna tjóns sem leitt verður af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefnd fyrir 1. júní 1997, ef veigamikil rök mæli með því.

Ég hef nú gert grein fyrir efnisákvæðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.