139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[14:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að bannað verði að flytja inn, framleiða og selja skrotóbak og allt bragð- og lyktblandað reyklaust tóbak.

Markmið frumvarpsins er að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og því heilsutjóni sem slík neysla veldur en rannsóknir hafa sýnt að neysla reyklauss tóbaks getur leitt til ýmissa sjúkdóma. Má í því sambandi nefna að í reyklausu tóbaki er að finna efni sem geta leitt til krabbameins og neysla reyklauss tóbaks getur einnig valdið ýmsum tannholdssjúkdómum og öðrum sjúkdómum í munni.

Einnig er vert að geta þess að neysla reyklauss tóbaks er ekki síður ávanabindandi en reyktóbaks og reyklaust tóbak inniheldur einnig nikótín.

Hæstv. forseti. Hinn 1. febrúar 1997 tóku gildi ákvæði laga nr. 101/1996, en þau voru sett vegna tilskipunar 92/41/EBE sem gerði aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES-ríkjunum skylt að banna munntóbak. Frá þeim tíma hefur verið bannað að flytja inn, framleiða og selja fínkornað neftóbak og munntóbak að undanskildu skrotóbaki. Þrátt fyrir framangreint bann hefur verið talsverð aukning á munntóbaksnotkun hér á landi meðal ungra karlmanna sem taka grófkornótt íslenskt neftóbak í vörina.

Samkvæmt könnunum á munntóbaksnotkun ungs fólks á aldrinum 16–23 ára sem gerðar voru fyrir Lýðheilsustöð árið 2009 og 2010 segjast um 20% pilta nota tóbak í vörina, 15% daglega en 5% sjaldnar. Má segja að niðurstöðurnar séu í samræmi við síaukna tóbaksframleiðslu ÁTVR sem hefur aukist úr 16,8 tonnum árið 2007 í 25,5 tonn árið 2010.

Í ljósi reynslu í öðrum löndum og aukinnar neyslu ungs fólks á íslenska neftóbakinu sem munntóbaki tel ég nauðsynlegt að binda í lög hömlur á frekari vöruþróun reyklauss tóbaks með banni á innflutningi, framleiðslu og sölu skrotóbaks og alls bragð- og lyktarblandaðs reyklauss tóbaks. Tel ég að um brýnar og nauðsynlegar ráðstafanir sé að ræða til að koma í veg fyrir að nýjar tegundir tóbaksvara nái að ryðja sér til rúms hér á landi. Ég legg áherslu á að skrotóbak hefur ekki verið til sölu á Íslandi síðustu árin, sama er að segja um bragð- og lyktblandað tóbak. Hér er því ekki verið að leggja til bann á vörum sem nú þegar eru á íslenska markaðnum heldur er um fyrirbyggjandi ráðstöfun að ræða.

Á grundvelli almannaheilbrigðis og þess forgangsverkefnis tóbaksvarna að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji notkun tóbaksvara tel ég nauðsynlegt að ákvæði frumvarpsins nái fram að ganga enda er hér um að ræða tóbaksvörur sem eru einkum markaðssettar þannig að þær höfði sérstaklega til ungs fólks.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir ákvæðum frumvarpsins en vil þó vekja athygli á að þar sem ákvæði þess fela í sér tæknilegar viðskiptahindranir þarf frumvarpið að fara í kynningu á EES-svæðinu í samræmi við lög nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, áður en unnt verður að samþykkja það sem lög frá Alþingi.

Menn þekkja málið vegna þess að skrotóbakið fékk undanþágur vegna pressu frá Svíum á sínum tíma og þess vegna hefur skrotóbak ekki verið bannað í íslensku lögunum. En þar sem viðleitni hefur verið til að koma með þetta tóbak inn á markaðinn hér og menn hafa verið að ganga frá því og setja í umbúðir sem eiga að höfða sérstaklega til barna og unglinga þá tel ég mikilvægt að við setjum þessa markalínu og bætum ekki inn á markaðinn tóbakstegundum sem hafa ekki verið á markaði hér og ekki seldar af ÁTVR. Þetta frumvarp þjónar þeim tilgangi að verja börn og unglinga fyrir frekari tóbaksnotkun. Ég held að öllum sé ljóst að ef við værum að innleiða tóbak inn á íslenskan markað sem nýja vöru sem ekki hefði verið hér um áratugi yrði það örugglega bannað en við búum við annan raunveruleika. Við erum því bara að reyna að setja þá markalínu að ekki verði aukning á tóbaksnotkun í kjölfar söluátaks sem hefði að markmiði að höfða til ungs fólks. Við höfum náð verulegum árangri hjá ungu fólki varðandi tóbaksreykingar og það væri miður ef við misstum þetta úr böndunum.

Ég leyfi mér því, virðulegur forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.