139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[14:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir frumvarpið en mér finnst heldur mikil forræðishyggja vera í því. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra og í frumvarpinu að þetta mun ekki breyta neinu um þær vörur sem standa til boða í dag. Því langar mig að beina spurningum til hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að einhverjar breytingar verði á munntóbaksnotkun eða notkun skrotóbaks? Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að verið er að nota svokallað íslenskt neftóbak sem framleitt er hér, sem skrotóbak þó það sé ekki framleitt sérstaklega sem slíkt. Telur hæstv. ráðherra að einhver breyting verði á því?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um forvarnir. Hér kemur fram að reykingarnar hafa miklu verri áhrif en þetta þó það réttlæti að sjálfsögðu ekki notkunina. Hér eru mjög sláandi upplýsingar um að 20% ungra karlmanna taki tóbak í vörina, 15% daglega og 5% sjaldnar. Var skoðað sérstaklega hjá hæstv. ráðherra og í ráðuneytinu að fara í frekari forvarnir? Hvernig hefur forvörnum verið háttað í þessum málum?

Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi kannski að efla þær frekar því eins og frumvarpið er lagt upp hamlar það í raun og veru ekki neitt þeirri notkun sem er í dag heldur er það til að fyrirbyggja að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (Forseti hringir.) fari hugsanlega einhvern tímann í framtíðinni að framleiða skrotóbak en það hefur ekki verið gert í áraraðir. Ég er því dálítið hugsi yfir markmiðum frumvarpsins, að setja þurfi sérlög á Alþingi um þetta málefni. Mér þætti skynsamlegra að fara í auknar forvarnir en setja frekari lög sem koma ekki til með að virka neitt.