139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum nótum og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson í andsvari sínu til hæstv. ráðherra. Nú er ég ekki sérfræðingur í reyklausu tóbaki og gef mig ekki út fyrir að vera slíkur. Mér finnst satt að segja mjög ósmart, svo ég fái að sletta aðeins í ræðustól, að sjá unga menn með úttroðna vör af tóbaki. Þrátt fyrir það og vitandi um skaðsemi þessa finnst mér þetta frumvarp ekki vera rökrétt vegna þess að það skilur svo margt eftir.

Ef menn telja að rétta leiðin til að ná árangri í að draga úr þessu sé að banna notkun vörunnar er einfaldasta spurningin sem mér dettur í hug til hæstv. ráðherra: Hvað með neftóbakið sem maður sér nánast á borðum annars hvers þingmanns hér í þingsal? Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það er það tóbak sem íslenskir karlmenn og piltar nota í vörina og taka í nefið, eins og alþingismenn eru kannski besta dæmið um. Af hverju ættum við að gefast upp í baráttunni ef þetta er rétta leiðin?

Nú er ég þeirrar skoðunar að frekar eigi að huga að því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson var að tala um, að auka forvarnir. Ég man t.d. þegar ég var unglingur að þá gekk sniffbylgja yfir. Ekki var hægt að banna lím, það var notað til annarra nota en besta forvörnin, sem varð til þess að engum skólafélaga í mínum árgangi á þeim tíma datt í hug að prófa þetta, var hörmulegt slys sem varð (Forseti hringir.) hjá dreng á svipuðum aldri og við. Til þess að koma skilaboðum um hættuna á framfæri voru okkur kynntar (Forseti hringir.) afleiðingarnar. Af hverju er ekki frekar gripið til þess ráðs í stað þess að fara í svona handahófskenndar bannbreytingar?