139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki rétt að kalla þetta handahófskenndar aðgerðir vegna þess að hér er verið að setja markalínuna eins og hún er í dag í framkvæmd.

Ég sagði áðan að það væri vaxandi pressa og inn á markaðinn væri að koma tóbak sem höfðaði til ungra barna. Vörn þeirra hjá ÁTVR við að taka það ekki inn á markað eru merkingarnar á því. Þeir geta borið fyrir sig ákveðnar kröfur um merkingar á tóbaksvörum um skaðsemi og að þær eigi að vera framan á dósum á áberandi stöðum o.s.frv. Það hefur enginn hafið innflutning á þessu. Í rauninni er það löglegt en ÁTVR hefur ekki tekið það inn. Þarna er sem sagt bara verið að biðja um það. Tökum þetta skref í byrjun og setjum markalínuna þarna.

Ég get tekið heilshugar undir að neftóbakið þurfi að skoða. Það geta ekki orðið rök í sjálfu sér, ef við ætlum að hindra að hingað komi meira inn á markaðinn, að segja: Það má koma af því það er eitthvað annað fyrir. Það er ekki alltaf þannig. Það er t.d. hægt að setja þetta í samband við ýmislegt annað eins og ég sagði áðan: Ef íslenska neftóbakið væri að koma algjörlega nýtt inn á markaðinn yrði það örugglega bannað. Það á við um margt annað. Við skiptum okkur af því með lögum og reglum að ekki megi vera ákveðin litarefni í Smarties en á sama tíma leyfum við eiturefni sem, eins og ég segi, uppfylla ekki neinar heilbrigðiskröfur.

Varðandi hvort nota eigi hræðslu eða fræðslu held ég að almennt séð telji menn, eins og komið hefur fram í umræðunni, að fræðslan dugi betur og skýrar fyrirmyndir. Það er líka annað sem mér hefur fundist hafa komið mjög skýrt fram undanfarin ár. Það er að gefa skýr skilaboð um hvað maður vill, þ.e. hvaða væntingar maður hefur, og setja skýran lagaramma um hvar mörkin eru. Unglingar vilja gjarnan að það sé gert og því sé fylgt eftir af heilindum. (Forseti hringir.) Samviskubit fullorðna fólksins má ekki verða til þess að ekki verði farið í baráttuna til að hindra aukna notkun á munn- eða neftóbaki.