139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:08]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður hefur heyrt þessa ræðu oft áður, að maður eigi ekki að stjórna með boðum og bönnum. Það hef ég haft að leiðarljósi í mínu starfi sem skólastjóri, þ.e. að það sé ekki meginreglan heldur eigi menn að ná samningum, reyna að fá fólk til að vinna með sér og finna ákveðnar lausnir.

Allir eru sammála um að ákveðnar reglur gilda í samfélaginu, spurningin er bara hvar við setjum mörkin. Utan um hvað setjum við mörk? Við getum fært markalínuna og bætt við neftóbakið einhverju öðru, tekið inn hass eða marijúana, það mundi í sjálfu sér færa markalínuna. Viljum við það? Af hverju eru boð og bönn þar? Það er einhver ástæða fyrir því. Það er ekki alls staðar í heiminum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að þora að taka afstöðu. Í þessu tilfelli er einmitt verið að fyrirbyggja vanda. Það er ekki verið að ganga fram með óhófi gagnvart því sem er eða fordómum gagnvart því sem hefur verið notað, það er verið að reyna að fyrirbyggja þann vanda að inn í landið komi vara sem er markaðságeng gagnvart ákveðnum (Forseti hringir.) hópum sem við viljum gjarnan vernda.