139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar í framhaldinu að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort honum þyki koma til greina, frekar en að banna eða útiloka tilteknar tegundir á næstunni, að herða frekar reglur um til að mynda sölu á tóbaksvörum með því að flytja þær í meira mæli út úr almennum verslunum, jafnvel aftur eingöngu inn í verslanir eins og ÁTVR.

Þá langar mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra hvað honum þyki um þá hugmynd að verðlagning á tóbaki verði í samræmi við þann samfélagslega kostnað sem neysla á tóbaki og tóbaksafurðum veldur. Má í því sambandi benda á að reiknað hefur verið út að einn pakki af sígarettum þyrfti að vera um fjórum sinnum dýrari en hann er í dag til að mæta þeim samfélagslega kostnaði sem notkun hans veldur.