139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:14]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áður hef ég ekki sett fram nein áform um að herða reglur varðandi sölu eða meðferð á því tóbaki sem þegar er í umferð, en eins og ég sagði líka tel ég fulla ástæðu til að við stöndum vaktina og fylgjumst vel með. Reglur voru hertar mjög verulega gegn því að stilla fram tóbaksvörum eða auglýsa þær með einhverjum hætti í verslunum. Þær eru baka til í verslunum. Ég held að það hafi verið mjög jákvætt skref.

Líka hefur tekist að móta almennt viðhorf, eins og varðandi reykingar, en á móti höfum við misst af stað ákveðna tískubylgju sem varðar skro og munntóbak. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöðvum þá þróun sem allra fyrst.

Það er líka ljóst að verðlagning hefur áhrif á neyslu, ekki síst hjá unglingum, þannig að full ástæða er til að hugleiða hver sé rétt verðlagning. Jafnvel þó að við getum sagt að margir af þeim sem nota tóbak séu í vandræðum með að greiða fyrir það í dag í því ástandi sem við búum við er það samtímis þannig að það er klárlega fyrirbyggjandi, sérstaklega fyrir ungt fólk, þegar hátt verð er á þeirri vöru (Forseti hringir.) sem það neytir.