139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur þróast út í að vera nokkuð hreinskilin og áhugaverð um margt. Ég vildi nota tækifærið af því hér eru menn að ræða almennt um þessi mál, og vekja athygli á því sem er án nokkurs vafa besta leiðin til að minnka neyslu á þessum vörum en það eru forvarnir.

Við Íslendingar búum svo vel, virðulegi forseti, að við höfum rannsakað grunnskólanema og framhaldsskólanema í áratugi. Það er því ljóst að við eigum þau gögn sem þarf til að byggja á góða stefnumótun í forvarnarmálum. Á þeim gögnum og ýmsu öðru var unnið nokkuð sem hét Heilsustefna og var kynnt haustið 2008. Í stuttu máli komu tugir aðila að þessu starfi ef ekki hundruð, jafnt úr grasrót sem sérfræðingar, og niðurstaðan var sú að ekki náist árangur hvað varðar ungmennin okkar nema allir leggist á eitt, hvort sem það eru fjölskyldur, skólar, íþróttafélög, samtök og alls staðar þar sem ungmenni stunda tómstundir. Því miður var þessari stefnumótun stungið undir stól af hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra, Guðbjart Hannesson, til að nýta þessa vinnu. Ég hef lagt munnlegar spurningar fyrir hæstv. ráðherra og mun fylgja þeim eftir í næstu fyrirspurnartímum. Markmiðin sem þarna voru sett fram voru öll tölusett og auðvelt að fylgja þeim eftir og fylgjast með hver árangurinn yrði.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru þessi efni sem hér hafa verið rædd notuð og brúkuð. Það er alveg ljóst að með skipulegum forvörnum sem fela í sér fræðslu og sömuleiðis hvatningu og aðgang að heilbrigðum tómstundaiðkunum og að til staðar séu fyrirmyndir sem vekja athygli á að þetta sé ekki sú leið sem ungmenni eigi að fara, næst bestur árangur. Sama hvað okkur finnst um einstakar tegundir held ég að við eigum öll að vera sammála um það. Við eigum alltaf og ekki síst núna á þessum tíma að vinna að því að koma í veg fyrir að ungmennin okkar nýti sér þessi efni. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til dáða hvað þetta varðar.