139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

624. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessum tveim þingmönnum fyrir þá umræðu sem þeir hafa fært hér inn. Vissulega má kalla það kaldhæðni að það skuli koma í hlut okkar í iðnaðarnefnd að flytja þetta frumvarp í dag þegar stjórn Orkuveitunnar situr á fundi og ræðir alvarlega fjárhagslega stöðu. Hún er auðvitað margvísleg en einn þáttur er sá sem hv. þingmaður ræddi um áðan sem er alveg hárrétt, lánin eru í erlendri mynt en tekjur í íslenskum krónum. Hrunið varð og þessi lán stökkbreyttust eins og önnur lán sem aðilar tóku í erlendri mynt. Það er eðlilegt að menn hrökkvi svolítið í kút við þetta. Það er sennilega upp undir hálfur mánuður síðan sú spurning kom til okkar í iðnaðarnefnd hvort iðnaðarnefnd vildi flytja þessa breytingartillögu sjálf sem gerir það þá að verkum að þetta fer hraðar hér í gegn. Við óskuðum umsagnar frá bæði ráðuneytinu og Orkustofnun. Þar var fallist á þetta. Hér er einfaldlega, virðulegi forseti, verið að búa til þessa grein og hafa hana nákvæmlega eins orðaða og er í lögunum um Landsvirkjun.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé galli í lagasetningu vegna hraðans. Ég vil ekki segja það, en hins vegar stend ég í þeirri meiningu að textinn í núverandi lögum, þeim sem við ætlum að breyta nú, hafi verið settur inn eftir beiðni og með samþykki Orkuveitu Reykjavíkur. Engir aðilar gerðu athugasemdir við þann texta. Ég vil ekki kenna hraðanum um, enda vorum við ekki í neinni tímaþröng. Það er erfitt að ræða þessi málefni á þessari stundu vegna þess að staðan er mjög viðkvæm en hins vegar kom fram á fundi nefndarinnar þegar þetta var kynnt fyrir okkur að að Orkuveitan er á fullu við að reyna að skuldbreyta lánum og semja við lánardrottna sína um betri kjör, lengingu o.s.frv. Þá kom fram í viðræðum að ákvæðið „að loknum gjaldþrotaskiptum fyrirtækisins“, guð forði okkur frá því að nokkurn tímann komi til þess, gæti tekið til svo langs tíma. Við þekkjum að það hefur tekið misjafnlega langan tíma að ganga frá gjaldþrotaskiptum fyrirtækja. Upp í huga minn kemur að það tók 15–17 ár að ljúka gjaldþrotaskiptum eins fyrirtæki, ég stend alltaf í þeirri meiningu, en það var nú mjög einstakt dæmi. Erlendu lánardrottnarnir gerðu athugasemdir við að það gæti liðið langur tími og þess vegna er þessu breytt á þann hátt sem hér segir í 1. gr. sem er nákvæmlega sama orðalag og á við um Landsvirkjun.

Mitt mat og allra nefndarmanna var að það væri sjálfsagt að verða við þessu í þessari erfiðu stöðu, en þau ákvæði sem voru inni í gömlu lögunum eiga auðvitað við um lán sem tekin voru áður. Þetta mun þá taka gildi við endurskipulagningu. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu. Eins og ég segi er hún mjög viðkvæm. Það er svolítil kaldhæðni að þetta skuli vera á sama tíma, en ég ætla ekki að blanda mér í það sem sagt hefur verið um eða hvernig komið er fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, eins og hér hefur komið fram, en eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fjallaði um var þetta áður fyrr gullgæs. Þetta er, eins og ég segi, hluti af þessu vandamáli sem við Íslendingar göngum í gegnum með allan okkar rekstur, alveg sama hvort það er fyrirtækjareksturinn á heimilum okkar eða fjölskyldu eða fyrirtæki úti um allt. Þetta er vandamálið og það sem blasir við eru þessar ofboðslegu skuldir. Þetta er afleiðing af því — ég ætla nú ekki að nota orðið sem kom upp í hugann — sem var í gangi hér í fjöldamörg ár þar sem erlent fé flæddi inn í landið og fyrirtæki og almenningur tók lán sem aldrei fyrr í erlendri mynt sem kom svo í hausinn á okkur eins og raun ber vitni.

Það er annars vegar aftur í tímann samkvæmt kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA sem hefur verið sett væntanlega inn í landsvirkjunarlögin á sínum tíma, en það kom bara aldrei upp í nefndinni og engir umsagnaraðilar bentu á að þetta ákvæði væri einhvern veginn öðruvísi orðað með Orkuveitu Reykjavíkur en Landsvirkjun. Þess vegna var samdóma álit iðnaðarnefndar að verða við beiðninni sem kom frá Orkuveitu Reykjavíkur, eins og ég segi, um að hafa þetta ákvæði eins að það var. Því er þetta frumvarp flutt hér.

Ég held að annað hafi ekki komið fram hérna sem ég vildi ræða um. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem fjölluðu um málið. Þetta er auðvitað grafalvarlegt, og kaldhæðið að þetta skuli vera rætt á sama degi. Auðvitað berum við þá ósk í brjósti að aldrei komi til þess að þetta ákvæði taki gildi gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Við skulum vona að sú björgunaraðgerð sem er í gangi dugi, eins og hv. þingmaður gat hér um, m.a. hækkanir til almennings og niðurskurður, að okkur takist bæði með þetta fyrirtæki og önnur sem og landið og fjölskyldurnar í heild að snúa vörn í sókn. Vonandi tekst okkur það þó að við getum verið sammála um að þetta taki dálítið langan tíma, því miður.