139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera í gangi ansi lengi og á sér langan aðdraganda. Það er öllum ljóst að eftir bankahrunið dragast tekjur ríkissjóðs mjög saman og það er alveg ljóst að við þurfum að gera meira fyrir minna fé. Svo sannarlega er það, held ég, markmið allra landsmanna að við séum hér áfram með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða þrátt fyrir að við höfum minni fjármunum úr að moða en áður. Að vísu var farið að líta til þess að taka á stjórnsýslu fyrir hrun, þ.e. skoða hvort vinna mætti hlutina betur og með hagkvæmari hætti. Var þá sérstaklega horft til þess, og er ég þá að vísa til þess hvað var gert í minni tíð sem heilbrigðisráðherra, hvernig styrkja mætti þessa þætti, þ.e. forvarnaþáttinn og sömuleiðis, sem er ekki síður mikilvægt, eftirlitsþáttinn.

Það hefur því miður verið afskaplega lítil umræða um eftirlitsþáttinn á Íslandi hvað varðar heilbrigðismálin og mjög margt bendir til þess að þar séu ýmsar brotalamir. Augljósustu brotalamirnar eru þær að upplýsingar um heilbrigðisþjónustu eru ekki samræmdar og hefur lítið þokast í rétta átt hvað það varðar. Ég spurði t.d., virðulegi forseti, hæstv. velferðarráðherra um afköst á heilbrigðisstofnunum, og var þá að vísa sérstaklega í spítalana og hinar ýmsu aðgerðir, og skemmst er frá því að segja að svörin voru fullkomin vitleysa og voru ekki í neinu samræmi við skýrslu sem gerð var nokkrum mánuðum fyrr í heilbrigðisráðuneytinu. Ég spurðist aftur fyrir um það af hverju þetta misræmi væri, það voru ólíkar tölur um sömu aðgerðir sem voru á sama tíma. Þá var svarið eitthvað á þá leið að mikið vantaði upp á að þetta væri samræmt og að stefnt væri að því að svo mætti verða. En ég hef ekki enn fengið rétt svör.

Nú gæti einhver sagt: Hvaða máli skiptir það hvort fyrir liggi einhverjar upplýsingar um fjölda aðgerða? Eru það ekki bara fullkomnar tiktúrur eða eitthvað sem litlu máli skiptir? En það er alls ekki svo. Við erum öll sammála um að við viljum hafa heilbrigðisþjónustu eins og best verður á kosið og við vitum öll að við höfum takmarkaða fjármuni til að gera það. Í raun er alveg sama hversu mikil sveifla er í þjóðfélaginu eða góðæri, eða hvað við köllum það, það er enginn sem hefur úr of miklu að moða til heilbrigðismála. Það er ekki til neinn heilbrigðisráðherra í veraldarsögunni sem hefur sagt: Heyrðu, ég get bara ekki nýtt meiri fjármuni, það er bara ekki hægt að gera meira. Það er alltaf hægt að gera meira í þessum málaflokki.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að við þurfum að móta stefnu sem tekur mið af því að halda uppi ákveðnu þjónustustigi með minni fjármunum. Þá er þetta tæki, eftirlitsþátturinn, mjög mikilvægt, t.d. tölulegar upplýsingar. Það hefur verið vanrækt og í umfjöllun um þessi mál, þ.e. þegar við fengum þetta frumvarp inn, höfum við ekki svo neinu nemi farið yfir þennan þátt mála.

Það skiptir líka grundvallarmáli að menn geti vitað það og treyst því að þegar þeir njóta lækninga og fá heilbrigðisþjónustu á Íslandi séu gæðin mikil. Nú gæti einhver sagt: Það hlýtur að vera, við erum með allt þetta frábæra starfsfólk og höfum fjárfest mikið í þessu á undanförnum árum og áratugum, þetta hlýtur allt að vera í fullkomnu lagi. En virðulegi forseti, það er ekki svo. Það allra versta er að við vitum ekki hvernig staðan er, það er það allra versta. Það er heljarinnar mál og það er flókið og þarfnast yfirlegu og skipulagningar að vera með góðar eftirlitsstofnanir á heilbrigðissviði. Nú höfum við gott tækifæri til að leggja grunninn að því, leggja meiri áherslu á það en við höfum áður gert.

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að það tækifæri erum við ekki að nýta. Hv. heilbrigðisnefnd hefur ekki tekið að sér það hlutverk sem hún ætti að gera, þ.e. að fara faglega yfir þessa hlið mála þannig að við getum verið nokkuð viss um að það sem við erum að gera núna skili sér í því að heilbrigðisþjónustan hér verði betri en hún er og við höfum betri upplýsingar og við fylgjumst betur með því hvernig heilbrigðisþjónustan er í framkvæmd hér á landi. Ég fullyrði það hvar og hvenær sem er að hv. heilbrigðisnefnd nýtti ekki tækifærið til að fara faglega yfir þennan þátt málsins.

Það má auðvitað segja að það liggi engin fagleg úttekt eða skýrsla fyrir, engin. Nú gæti einhver sagt: Það er neyð og við þurfum að flýta okkur. En það eru tvö ár frá því að bankarnir hrundu og það liggur fyrir að fyrir þann tíma voru menn farnir að huga að þessu þannig að menn byrjuðu ekki á núlli. En sú vinna sem unnin hafði verið áður var ekki nýtt. Á síðasta fundi hv. heilbrigðisnefndar spurði ég landlækni að því hvaða faglegu úttektir eða skýrslur lægju til grundvallar. Skemmst er frá því að segja að svarið var mjög einfalt: Ekkert. Ekki neitt. Menn geta haft þá skoðun að þetta verði allt miklu betra þegar ný stofnun er tekin við en það liggur ekkert til grundvallar, ekki neitt. Það var staðfest í umfjöllun hv. heilbrigðisnefndar.

Menn gætu þá sagt: Þá hlýtur að liggja til grundvallar góð úttekt á fjárhagslegum þætti málsins. Það er búið að vinna að þessu í marga mánuði samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum bestar og höfum fengið staðfest af aðilum innan framkvæmdarvaldsins, ekki bara frá því í október síðan við fengum það inn í þingið, ef ég man rétt, heldur löngu fyrir þann tíma. Við hljótum því að hafa einhverjar áætlanir um það hvaða fjárhagslega ávinningi þessi sameining á að skila.

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega engin úttekt á fjárhagslegum ávinningi af þessari sameiningu. Menn segja kannski: Heyrðu, hérna brást framkvæmdarvaldið og löggjafinn, þingið, getur ekkert annað gert en einhvern veginn afgreitt þetta af þessum vanefnum sem er að vísu afskaplega metnaðarlítið sjónarmið en sjónarmið út af fyrir sig, og löggjafinn hefur einfaldlega ekki tæki til að gera neitt í þessu. En þetta er einfaldlega alrangt. Við erum búin að hafa þetta frumvarp í þinginu í fleiri mánuði og ekki hefur verið neinn vilji frá meiri hlutanum til að skoða þessa þætti, fjárhagslega þáttinn og faglega þáttinn. En heilmikið var rætt um nafnið á stofnuninni, og ég á von á því að þingsalurinn ræði það heilmikið, er alveg sannfærður um það. Gott ef það kom ekki breytingartillaga sem við vorum að samþykkja að yrði tekin fyrir hér um nafnið á stofnuninni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er mjög skynsamlegt að hafa gott nafn. En er það markmiðið með þingstörfunum? Er það þess vegna sem hv. fagnefnd á að fara yfir þetta? Er það fyrst og fremst til að fjalla um nafnið þegar við erum hvorki meira né minna en að tala um eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustunnar sem nú á að sameina þeirri stofnun sem á að sjá um forvarnamálin?

Það eru alla vega skilaboðin, virðulegi forseti, frá meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar. Það er það sem hv. meiri hluti ætlar að gera, hann ætlar að klára þetta núna. Maður hefur haft það á tilfinningunni að fyrst og fremst hafi verið litið á það sem einhver óþægindi að þurfa að ræða þetta í nefndinni, því svo sannarlega höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, vakið athygli á þessu aftur og aftur og reynt að fá hv. þingmenn meiri hlutans til að setjast yfir þetta og gera þetta með þeim hætti að sómi væri að. Svo er ekki en við skulum alveg vera sanngjörn, menn verða að eiga það sem þeir eiga. Það er búið að ræða þó nokkuð mikið um nafnið og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Ég á von á því að menn muni örugglega ekki spara sig í því að fara yfir nýjar tillögur um nafnið á stofnuninni.

Virðulegi forseti. Það liggur engin fjárhagsleg úttekt fyrir við áætlun, en svo við spörum okkur ekkert þá var hins vegar til skýrsla um sameiningu stjórnsýslustofnana, sem hét, með leyfi forseta: „Breytt skipan stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins“. Sá sem samdi hana var Stefán Ólafsson sem er prófessor í félagsfræði. Einhverjum mundi finnast það áhugavert að prófessorinn hafi verið fenginn í þetta verkefni en látum það liggja milli hluta. Þetta er, eftir því sem við best vitum, það eina gagn sem liggur til grundvallar. Ég held að flestir sem hlusta á þetta mundu draga þá ályktun að þá hefðu menn nú farið gaumgæfilega yfir skýrsluna og fengið skýrsluhöfund til að útskýra sitt mál úr því að þetta er eina gagnið sem við höfum. Nei, virðulegi forseti. Það var aldrei gert. Það var aldrei farið yfir skýrsluna í hv. heilbrigðisnefnd.

Nú eru til önnur gögn um þessi sameiningarmál og beðið var um að þau yrðu kynnt og að þeir sem komu að þeirri vinnu yrðu kallaðir fyrir hv. heilbrigðisnefnd. En meiri hlutinn var ekki á því. Meiri hlutinn ákvað að það væri fullkominn óþarfi að fara yfir eina gagnið sem var til, það er áhugavert að menn vilji ekki nýta sér það eða tala um það, og því síður að fá upplýsingar um önnur gögn sem hafa verið unnin í tengslum við breytingar á stjórnsýslustofnunum heilbrigðisráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Til að opna augu meiri hlutans fyrir mikilvægi þessa þáttar fengum við á fund okkar Ingibjörgu Hjaltadóttur, báðum um að hún kæmi og kynnti doktorsverkefni sem hún er að vinna varðandi gæði í heilbrigðisþjónustu. Það ber að þakka að hv. formaður heilbrigðisnefndar tók vel í það og við fengum Ingibjörgu Hjaltadóttur til að kynna niðurstöður sínar um hjúkrunarheimili og gera samanburð á þeim og hjúkrunarheimilum í öðrum löndum. Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar voru sláandi, bæði er mjög mikill munur, virðist vera, á hjúkrunarheimilum hér á Íslandi og sum eru ekki með mikil gæði. Þá snýst þetta um líðan fólks, virðulegi forseti, um hættu á slysi á fólki sem eru vistmenn, um lyfjaneyslu vistmanna, tækifæri þeirra til hreyfingar o.s.frv. Ísland kom líka afskaplega illa út í samanburði við það sem gerist annars staðar. Ég verð að viðurkenna að ég vonaðist til þess að þegar við fengjum þessar niðurstöður, svart á hvítu, mundu augu hv. þingmanna meiri hlutans opnast. Ég vonaðist til að þeir segðu: Við skulum ekki láta þetta tækifæri frá okkur fara. Við skulum fara vel yfir þennan þáttinn. Það er það sem skiptir máli að faglegi þátturinn sé góður. Það er augljóst að það eftirlitskerfi sem við höfum haft til þessa virkar ekki eins og við viljum. Núna skulum við ganga þannig frá að við skulum vera viss um að þessi faglegi þáttur, þessi eftirlitsþáttur, sé kominn í betra horf. En það var ekkert verið að ræða slíka hluti, það var ekki verið að taka á málum með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Í þeirri sérkennilegu pólitísku stöðu sem nú er uppi, þar sem varla sá dagur líður án þess að eitthvert hneyksli sé á stjórnarheimilinu, sem mundi sprengja allar aðrar ríkisstjórnir í stjórnmálasögunni — nú þekki ég þá sögu ágætlega — getur vel verið að svona mál fái enga athygli. En þetta er stórmál fyrir alla landsmenn en sérstaklega þá sem þurfa á þjónustu að halda. Þá er ég ekki bara að vísa á hjúkrunarheimilin. Það er algerlega ljóst, það eru í það minnsta líkur á því að ef brotalöm er í eftirliti varðandi þjónustu á hjúkrunarheimilum er jafnlíklegt að slíkt sé til staðar annars staðar, sérstaklega í ljósi þess að við höfum ekki einu sinni samræmdar upplýsingar um þjónustu á heilbrigðisstofnunum landsins. Ég verð að viðurkenna að jafnmeðvitaður og ég er um það að við erum ósammála, hv. þingmenn, og eigum að vera það, það er ekkert að því, í hinum ýmsu málum, þá hélt ég að við gætum náð samstöðu um að vinna þessa hluti. Mig óraði ekki fyrir því að við þyrftum að takast á um það hvernig við vinnum þetta eða réttara sagt vinnum það ekki. Ég átti ekki von á því að þurfa að halda ræðu eins og ég held hér í tengslum við þetta mál. Ég hélt að hv. heilbrigðisnefnd mundi ná saman í máli eins og þessu, í það minnsta um vinnubrögðin.

Nú getur enginn, virðulegi forseti, talað um tímaþröng því að þó að mikið álag hafi verið í mörgum hv. nefndum þingsins þá hefur sú staða ekki verið uppi í heilbrigðisnefnd. Við höfðum allan þann tíma sem við hefðum viljað til að fara vel yfir þetta mál. Við hefðum getum kallað alla þá aðila sem við hefðum viljað til að fara yfir þetta mál.

Virðulegi forseti. Af því að oft koma neikvæðar fréttir frá þinginu þá upplýsi ég það að þó svo maður sé í minni hluta þá er almenna reglan sú að ef maður biður um að fá gesti á fundi nefndar þá er orðið við því, það er almenna reglan. Almenna reglan er sú, og nú hef ég ýmislegt út á ríkisstjórnarmeirihlutann að setja, að þeir sem eru í forustu fyrir hv. nefndir í ríkisstjórnarmeirihlutanum vilja koma til móts við minni hlutann, boða þá gesti á fund sem beðið er um og fara vel yfir málin. En í þessu máli var það ekki gert. Því var hafnað að fá þá aðila sem vísað er til og ekkert var gert með óskir minni hlutans, eða okkar hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um málsmeðferð fyrr en — og það er einn þáttur sem ég á eftir að fara í á eftir — en ábendingar, getum við sagt, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, komu frá starfsmönnum þessara stofnana. En ef þær hefðu ekki komið hefðum við aldrei rætt þann þátt sem snýr að starfsmannamálum en það var sem sagt farið í það, sem er mjög óheppilegt, í ráðningarferli sem var ekki nógu skýrt, ekki var auglýst eftir yfirmönnum og olli það miklum óróa.

Bent var á það í hv. heilbrigðisnefnd af okkur fulltrúum sjálfstæðismanna og það var ekkert með það gert, virðulegi forseti, fyrr en bréf barst frá starfsmönnum landlæknisembættisins þar sem þeir fóru fram á að þetta mál yrði tekið fyrir og farnar yrðu ákveðnar leiðir sem ekki var farið í. Þar voru menn fyrst og fremst að gagnrýna það að í desember var farið í ráðningarviðtöl við ákveðna starfsmenn stofnunarinnar til að vera í sviðsstjórastöðu í stofnun sem var ekki til og er ekki enn þá til og er það ekki í stíl við það hvernig unnið hefur verið í öðrum stofnunum enda mjög hæpið að fara að ráða í stöður í stofnun sem er ekki til. Það veldur eðlilega úlfúð og er gagnrýnt þegar yfirmannastöður eru ekki auglýstar. En því miður, og það er óheppilegt, var ekki nógu vel haldið á þessum málum.

Ég nefndi áðan að engin fjárhagsleg úttekt liggur fyrir. Þó vitum við nokkra hluti. Við vitum að það mun kosta 60 millj. kr. aukalega að sameina þessar stofnanir á þessu ári. Við vitum að í versta falli getur umframkostnaður vegna húsnæðis orðið 450 millj. kr. á næstu 17 árum. Nú vonum við að ekki muni koma til þess en miðað við ástandið í dag bendir ekkert til annars en að umframkostnaður verði verulegur. Þetta er til komið vegna þess að landlæknisembættið er fast í löngum leigusamningi með mjög dýrri leigu og nýtt embætti auglýsti eftir húsnæði, tók ekki lægsta boðinu heldur hærra boði og ekki er búið að finna neinn aðila til að greiða þessa leigu í gamla húsnæðinu. Það eina sem er algerlega öruggt er að það er enginn sem veit hver á að bera þennan kostnað, það veit enginn neitt um það.

Nú er það bara þannig, virðulegi forseti, að það er verið að slást um hverja einustu krónu í heilbrigðismálum. Þetta er viðkvæm þjónusta og þegar menn skera niður þýðir það alla jafna, eða í langflestum tilfellum, að menn verða annaðhvort að skerða starfshlutföll eða segja upp fólki eða hætta við einhver verkefni sem eru í gangi. Það er alveg ljóst að sá kostnaðarauki sem verður af þessari sameiningu mun leggjast á heilbrigðismálin eða félagsmálin. Það er það eina sem er algerlega ljóst en ekki hefur verið upplýst um hvar hann lendir, hvort hann lendir á viðkomandi stofnun þannig að segja þurfi upp fólki þar eða hvort það er sett á einhvern annan þátt, einhverja aðra heilbrigðisstofnun úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að það hafi verið settir aðilar til að stýra þessu verkefni í mars í fyrra og maður skyldi þá ætla að menn hefðu hugsað fyrir jafnaugljósum hlut og þessum á þessum tíma. En það var staðfest fyrir nokkrum dögum í hv. heilbrigðisnefnd að það hefur ekki enn verið gert.

Nú er ég ekki afhuga því að verið sé að sameina stofnanir þegar fyrir því eru fagleg og fjárhagsleg rök. Ef við getum náð sparnaði, t.d. á sviði yfirstjórnar og slíku, en haldið úti þjónustunni þá eigum við bara að gera það jafnvel þó að það séu erfið verkefni. En við eigum að reyna að undirbúa það eins vel og kostur er. Stundum þurfa menn að vinna hratt og fyrir því eru málefnaleg rök. Hér hefur hins vegar lengi verið unnið í þessu máli en grundvallargögnum, sem nauðsynleg eru til að fara í hluti eins og þessa, hefur ekki verið skilað. Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að ég sakna þess virkilega að menn hafi ekki notað tækifærið og skoðað þetta í stærra samhengi, skoðað Lyfjastofnun sérstaklega og lyfjaeftirlitsnefnd. Þar eru menn, sérstaklega í Lyfjastofnun, með ákveðinn eftirlitsþátt í heilbrigðisgeiranum. Þetta var skoðað á sínum tíma og voru augljós samlegðaráhrif þar á milli. Ef menn hefðu nýtt tímann gætum við komið með góða áætlun um það hvernig best væri að þessum málum staðið.

Almenna reglan er sú að forvarnahlutinn og eftirlitsþátturinn eru ekki í sömu stofnuninni. Ef ég man rétt er það bara í Finnlandi sem menn fara þá leið en ekki önnur Norðurlönd. Hugsunin er alltaf sú sama að menn reyna að hafa eftirlitsstofnanirnar einar og sér. Þó getur verið eftirlit með fleiri en einum þætti, stofnunin getur haft eftirlit með hefðbundinni heilbrigðisþjónustu, sem við köllum svo, lyfjamálum og öðru slíku, en það er mjög mikilvægt að stofnanir hafi ekki eftirlit með sjálfum sér. Það er mjög mikilvægt og eðlilega. Ef menn ætla að halda vel utan um hluti þá munu menn þurfa að mæla árangurinn í forvarnamálum. Það er ákveðin hætta á ferð þegar menn eru með þetta í einni stofnun, að þær hafi eftirlit með sjálfum sér. Í það minnsta hafa þær áætlanir sem hafa verið í forvarnamálum fram til þessa verið í höndum og á ábyrgð, mjög stór hluti í það minnsta, Lýðheilsustofnunar.

Virðulegi forseti. Ef frumvarpið verður að lögum, sem allar líkur eru á, þá óska ég starfsmönnum stofnunarinnar vissulega alls hins besta og velfarnaðar í þeim krefjandi verkefnum sem fram undan eru. Þau eru erfiðari og meira krefjandi vegna þess að hv. heilbrigðisnefnd og hv. alþingismenn unnu ekki vinnuna sína eins og þeir hefðu átt að gera — og stend ég við það hvar og hvenær sem er. Í þessu nefndaráliti ásamt öðru eru útskýringar á því, rök fyrir því. Við höfum tekið þessa umræðu nokkuð oft í þingsölum. Hún hefur ekki farið hátt, ekki vegna þess að hún sé ekki merkileg heldur vegna þess að annað skyggir á. En mér þykir mjög miður hvernig menn hafa unnið þetta. Ég vona svo sannarlega að við munum ekki sjá vinnubrögð eins og þessi í þeim málum sem hv. heilbrigðisnefnd mun taka á í nánustu framtíð.