139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir málflutning hv. þingmanns. Hann segir: Hér kemur engin tillaga um lagabreytingu. (ÓGunn: Við erum búin að ræða málið í þrjá mánuði.) Hver sagði að breyta þyrfti lögunum, virðulegi forseti? Tveir aðilar hafa skoðað þessi mál sérstaklega, Stefán Ólafsson prófessor einhverra hluta vegna og síðan var unnið að þessu í minni tíð sem ráðherra. Nú gæti einhver spurt: Ef skoða á þetta, af hverju kalla menn þá ekki þessa aðila til og fara yfir hvað þeir vita svo við getum unnið úr því og kannski komist að þeirri niðurstöðu að breyta þurfi lögum eða einhverju öðru? En meiri hlutinn bannaði það, stoppaði það, og það er ekki almenna reglan, virðulegi forseti. Sú umræða var ekki tekin, þessir aðilar voru ekki spurðir.

Varðandi að fjármagn vanti, þá þarf ekki meira fjármagn til að samræma upplýsingar um aðgerðir. Þær þurfa bara að vera samræmdar. Þetta var ekkert rætt, virðulegi forseti, ekki orð. Hér kemur hv. þingmaður upp til að upplýsa um að stofnunin þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur, hún þurfi ekki að bera þessar 60 millj. kr. á þessu ári eða hugsanlega 450 millj. kr. á næstu 17 árum, hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Hver þarf þá að hafa áhyggjur af því? Er það spítalinn á Ísafirði? Er það Landspítalinn? Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu? Hver á að bera kostnaðinn? Við erum búin að vera með þetta mál síðan í október í þinginu. Vill hv. þingmaður eða einhver hv. þingmaður koma upp og útskýra það, segja okkur frá því? Búið er að spyrjast fyrir um þetta frá fyrsta degi og svarið er: Eigum við að láta vondan leigusamning koma í veg fyrir sameiningu stofnana? Og hv. þingmaður segist vera sammála því að það eigi að leysa þetta. (Forseti hringir.) Af hverju leysti hv. þingmaður ekki þetta mál og, í það minnsta, af hverju svaraði hann því ekki hvar sparnaðurinn eigi að koma fram?